HM U18 ára kvenna: Ísland í fjórða flokki þegar dregið verður í riðla

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari ræðir við leikmenn U18 ára landsliðsins í leik síðasta sumar. Mynd/HSÍ

Ísland verður í fjórða og neðsta styrkleikaflokki þegar dregið verður á morgun í riðla fyrir heimsmeistaramót kvennalandsliða, skipað leikmönnum 18 ára og yngri. Norður Makedónía verður gestgjafi mótsins.


Alls verða nöfn 32 þjóða í skálunum sem dregið verður úr á morgun og hefur þátttökuþjóðum verð skipt niður í fjóra styrkleikaflokka.

Boðinu svarað umsvifalaust

Handknattleikssambandi Íslands barst boð í síðustu viku um að senda lið til keppni á mótinu eftir að fjögur landslið heltust úr lestinni, þar af þrjú Evrópuríki. Að sögn Róberts Geirs Gíslasonar framkvæmdstjóra HSÍ þurftu menn ekki að hugsa sig um tvisvar áður en boðinu var tekið. Var því svarað játandi á sama klukkutímanum og það barst.

Markmiðið er skýrt

„Okkar markmið er alveg skýrt og það er taka þátt í öllum lokamótum stórmóta sem okkur stendur til boða að taka þátt í,“ sagði Róbert Geir í samtali við handbolta.is.

Fleiri bættust í hópinn

Auk Íslands var Færeyingum, Spánverjum og Indverjum boðið að taka þátt til þess að fylla í sæti þeirra sem heltust úr lestinni. Þjóðunum fjórum er öllum raða í neðsta styrkleikaflokk.


Ísland verður dregið í riðil með einni úr hverjum styrkleikaflokki að þeim fjórða undanskildum.


Flokkur 1: Ungverjaland, Þýskaland, Íran, Damörk, Króatía, Noregur, Rúmenía, Svartfjallaland.
Flokkur 2: Sviss, Portúgal, Frakkland, Svíþjóð, Norður Makedónía, Tékkland, Kasakstan, Holland.
Flokkur 3: Egyptaland, Austurríki, Brasilía, Slóvakía, Argentína, Gínea, Úsbekistan, Alsír.
Flokkur 4: Suður Kórea, Indland, Senegal, Úrúgvæ, Færeyjar, Ísland, Slóvenía, Spánn.

Glæsilegar keppnishallir

Mótið stendur yfir frá 30. júlí til 10. ágúst og verður leikið í Jane Sandanski, keppnishöll Vardar Skopje, og Boris Trajkovski, þjóðarhöll Norður Makedónumanna. Báðar keppnishallir eru í höfuðborginni, Skopje, og eru þær afar glæsilegar.

Ekkert klístur

Á mótinu verður í fyrsta sinn keppt með nýjum bolta sem á að gera harpix óþarft í handknattleik. Samkvæmt upplýsingum handbolta.is kemur á næstunni sending af boltunum til landsins sem leikmenn landsliðsins eiga að nota á æfingum fyrir mótið til að venjast gripnum.

Vináttuleikir um helgina við Færeyinga

U18 ára landslið Íslands og Færeyja hita upp fyrir heimsmeistaramótið með tveimur vináttuleikjum í Kórnum á laugardaginn og sunnudaginn. Báða daga verður flautað til leiks klukkan 16.30. Sömu daga leiða U16 ára landslið kvenna sömu þjóða einnig saman hesta sína í Kórnum. Flautað verður til leiks klukkan 14, hvorn dag.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -