- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU18: Mögnuð frammistaða við erfiðar aðstæður

U18 ára landsliðið stóð sig frábærlega á heimsmeistaramótinu. Mynd/Brynja
- Auglýsing -

„Frammistaðan var mögnuð við mjög erfiðar aðstæður þar sem fjöldi heimamanna var á leiknum og studdi hressilega við bakið á sínu liði,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U18 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í gærkvöld, skömmu eftir að íslenska landsliðið vann lið Norður Makedóníu með þriggja marka mun, 25:22, í síðustu umferð milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í Skopje í Norður Makedóníu. Íslenska liðið er þar með enn taplaust í keppninni og leikur í átta liða úrslitum á morgun við Hollendinga.

Lið Norður Makedóníu tapaði af sæti í átta liða úrslitum og leikur um níunda til tólfta sætið. Svíar hirtu hitt undanúrslitasætið sem boði var í riðlinum.


„Okkur tókst að ná góðum tökum á leiknum strax í byrjun. Allt til leiksloka þá héldum við yfirhöndinni og komum í veg fyrir að lið Norður Makedóníu lánaðist að jafna eða komast yfir. Við vorum alltaf skrefi framar,“ sagði Ágúst Þór hás eftir að hafa látið mjög til sína taka við hliðarlínuna frá upphafi til enda leiksins.

Breytt vörn skilaði árangri

„Sex núll vörn okkar var mjög góð framan af. Hún fór hinsvegar að leka þegar kom fram í síðari hálfleik. Þá gerðum við breytingar og skiptum yfir í fimm einn vörn síðustu fimmtán mínúturnar. Breytingin skilaði tilætluðum árangri.

Andstæðingurinn réði ekki við vörnina okkar, við unnum boltann í nokkur skipti og sennilega gerði það gæfumuninn þegar upp var staðið,“ sagði Ágúst Þór ennfremur.

Sóknarleikurinn einnig mjög góður

Eins og fyrr í leikjum íslenska liðsins í mótinu var það öflugur varnarleikur og mjög góð markvarsla sem var aðal liðsins. Þessi atriði skiliðu mikilvægum mörkum þegar upp var staðið að mati Ágústs Þórs. „Sóknarleikurinn var einnig mjög góður að þessu sinni, stóran hluta leiksins.“

Létu aldrei slá sig út af laginu

„Fyrst og fremst er ég mjög ánægður með að stelpunum tókst að halda haus undir mikilli pressu. Það var líka mikið undir hjá liði Norður Makedóníu í leiknum sem fékk mikinn stuðning, hávaðinn og lætin í höllinni voru mikil. Íslensku stelpurnar létu umhverfið ekki slá sig út af laginu, héldu yfirvegun og ró sem er mikið styrkleikamerki,“ sagði þjálfarinn sem ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni hefur lánast að koma saman mjög sterkri liðsheild sem nær toppnum á réttum tíma.

Naglar í morgunmat?

Á morgun tekur við næsti leikur þegar leikið verður við Hollendinga um sæti í undanúrslitum. Hollenska liðið er mjög öflugt og skemmtilegt lið.
Ágúst Þór sagði að viðureignin í gærkvöld hafi tekið sinn toll af liðinu. Fyrir vikið verði lögð rík áhersla á að ná góðri endurheimt og hvíld í dag. Leikurinn var seint að staðartíma í gær og því verði gefin góður tími til hvíldar fram undir hádegi í dag áður en farið verður að búa sig undir næstu viðureign.


„Krafturinn í stelpunum er gríðarlegur. Ef ég vissi ekki betur þá mætti halda að þær ætu nagla í morgunmat,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson við handbolta.is í gærkvöld.

Áfram veginn

Leikurinn við Holland hefst klukkan 16.15 á morgun. Hægt verður að fylgjast með leiknum, eins og öðrum leikjum Íslands á HM, í textalýsingu og í gegnum streymi á handbolti.is.

Hvernig sem leiknum við Holland lýkur þá verður það alls ekki síðasti leikur íslenska landsliðsins. Framundan eru leikir á mánudaginn og á miðvikudaginn, síðasta keppnisdegi heimsmeistaramótsins í Skopje í Norður Makedóníu.



- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -