HMU18: Sögulegt afrek – Erum í sjöunda himni

U18 ára landslið kvenna hefur náð sögulegum árangri á HM. Mynd/Aðsend

U18 ára landslið Íslands er öruggt um sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik kvenna eftir að Svíar og Norður Makedónía gerðu jafntefli í kvöld, 20:20, í hinni viðureign fyrsta milliriðlsins en í honum er íslenska liðið. Þar með er ljóst að íslenska landsliðið verður aldrei neðar en í öðru sæti í riðlinum og öðlast þar með sæti í átta liða úrslitum eins og Norður Makedónía.


Um er að ræða sögulegan árangur fyrir íslenskan kvennahandknattleik. Aldrei hefur kvennalandslið Íslands í nokkrum flokki náð eins langt á stórmóti og U18 ára stelpurnar hafa þegar komist. Stúlkurnar, þjálfarar og aðstoðarfólk er að skrifa söguna í Skopje þessa dagana enda var Ágúst Þór Jóhannsson í sjöunda himni þegar handbolti.is heyrði stuttlega í honum hljóðið þegar hann var að yfirgefa Boris Trajkovski Sports-íþróttahöllinni í Skopje í kvöld.

Hafa unnið fyrir þessu

„Stelpurnar og við sem erum að vinna með stelpunum erum í sjöunda himni. Það er fátt meira um það að segja. Þetta er gríðarlegt afrek og stórt fyrir íslenskan kvennahandbolta. Stelpurnar hafa unnið fyrir þessu enda staðið sig frábærlega bæði á mótinu og við undirbúning þess,“ sagði Ágúst Þór sem er þjálfari liðsins ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni.


„Ég er stoltur og ánægður en að sama skapi þá verðum við að gæta þess að fara ekki framúr okkur. Okkar markmið verður hér eftir sem hingað til að gera eins vel og við getum og komast eins langt og mögulegt er í mótinu,“ sagði glaðbeittur Ágúst Þór Jóhannsson í samtali við handbolta.is í kvöld.
Ísland er með fjögur stig í milliriðli eitt, Norður Makedóníu þrjú stig, Svíþjóð eitt og Íran ekkert.


- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -