- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU18: Sportið getur verið grimmt

Thelma Melsted Björgvinsdóttir í ákjósanlegu marktækifæri í leiknum við Hollendinga. Mynd/IHF
- Auglýsing -

„Eins og sportið getur verið skemmtilegt þá getur það einnig verið hrikalega grimmt. Við finnum fyrir því núna,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfari U18 ára landsliðs kvenna þegar handbolti.is náði af honum tali eftir naumt tap íslenska landsliðsins fyrir Hollendingum í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í Skopje í Norður Makedóníu í kvöld, 27:26.


„Stelpurnar stóðu sig frábærlega í þessum leik. Ég get ekki gert annað en að hrósa þeim fyrir frábæra frammistöðu. Niðurstaðan er eins grátleg og hún getur frekast orðið. Vinnusemin, hugarfarið og baráttan var algjörlega til fyrirmyndar,“ sagði Ágúst Þór ennfremur.


Ágúst Þór sagði að í svona jöfnum leik eins og þessum þá ráðist úrslitin á einu eða tveimur atriðum þegar upp er staðið. Að hans mati hafi liðið ekki verið alveg eins beitt í fyrri hálfleik og það hefur verið á stundum. Í síðari hálfleik hafi sóknarleikurinn verið mun betri.

Breytingar skiluðu árangri

„Boltinn gekk betur og okkur tókst að opna vörn Hollendinga. Upp úr miðjum síðari hálfleik gerðum við breytingar á vörninni sem sló hollenska liðið út af laginu um stund og okkur tókst að jafna.

Eftir það var stál í stál. Stelpurnar lögðu sig alla fram og voru hársbreidd frá sæti í undanúrslitum. Sú staðreynd undirstrikar þau gæði sem eru í þessu liði og hvað í þeim býr.“


„Framundan er að nota kvöldið og fyrri hluta morgundagsins til að vera tilbúin í leikinn við Frakka annað kvöld,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson ákveðinn í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -