- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU18: Stelpurnar eru í stórsókn

Katrín Anna Ásmundsdóttir var markahæst gegn Frökkum með sjö mörk. Mynd/IHF
- Auglýsing -

„Ég er gríðarlega ánægður með liðið. Að vera í leik við Frakka þrátt fyrir að vera með lemstrað lið, alltént í síðari hálfleik undirstrikar í hversu mikilli sókn stelpurnar eru. Ekki má gleyma því að andstæðingurinn er einn sá allra sterkasti í heiminum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar af þjálfurum U18 ára landsliðsins í handknattleik kvenna við handbolta.is í kvöld eftir þriggja marka tap, 32:29, fyrir Frökkum í krossspili um fimmta til áttunda sætið á heimsmeistaramótinu í Norður Makedóníu.

Stelpurnar þakka sínum öflugu og traustu stuðningsmönnum fyrir eftir leikinn við Frakka. Mynd/Brynja

Alltaf í fremstu röð

„Það var vitað fyrirfram að leikurinn yrði mjög erfiður enda hafa Frakkar alltaf verið með eitt af bestu liðum heims í þessum aldursflokki og eru þar á ofan frábær handboltaþjóð. Franska liðið er afar hávaxið með fjóra leikmenn yfir 190 sentímetrar og leikur mjög sterka sex núll vörn sem íslensku stelpunum tókst að opna hvað eftir annað. Við hefðum getað nýtt betur góð marktækifæri á mikilvægum tímapunktum í leiknum. Annars var sóknarleikurinn mjög góður og varnarleikurinn líka, ekki síst í síðari hálfleik. Eins var Ingunn sterk í markinu,“ sagði Ágúst Þór en leiknum var nánast skipt jafnt á milli markvarðanna Ethel Gyðu Bjarnasen og Ingunnar Maríu Brynjarsdóttur

Tinna Sigurrós meiddist

Elísa Elíasdóttir var ekki með í þessum leik auk þess sem Tinna Sigurrós Traustadóttir fékk högg þegar um 20 mínútur voru til leiksloka. Fjarvera þeirra hefur svo sannarlega sitt að segja. Ágúst Þór sagði svo vera en á móti komi að þeir leikmenn sem eftir eru hafi bitið í skjaldarrendur og tekið að sér stærri hlutverk og staðið sig frábærlega.

Embla Steindórsdóttir lék vel í dag á móti Frökkum. Mynd/IHF

Hafa stimpla sig inn í fremstu röð

„Það er mjög gaman að sjá hversu stór framfaraskref þessi hópur hefur tekið á undanförnum vikum og mánuðum. Frammistaða þeirra hefur vakið mikla athygli hér ytra. Ljóst er að þessi hópur hefur svo sannarlega stimplað sig inn sem eitt besta landslið heims í sínum aldursflokki,“ sagði Ágúst Þór sem er þrautreyndur þjálfari sem þekkir vel til í alþjóðlegum handknattleik.

Ljúkum mótinu með sóma

„Síðasti leikur okkar verður á miðvikudaginn gegn Svíum eða Egyptum um sjöunda sætið á HM. Við munum nýta tímann til hins ítrasta til að búa okkur sem best undir leikinn og ljúka mótinu með sóma,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar af þjálfunum U18 ára landsliðs kvenna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -