- Auglýsing -
- Auglýsing -

Höfum þétt raðirnar við hvert högg

Elvar Ásgeirsson landsliðsmaður og leikmaður Nancy. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Staðan er bara eins og hún er. Við erum hættir að velta okkur upp úr þessu öllu saman. Hvert högg sem dunið hefur á hópnum hefur bara leitt til þess að við sem eftir erum þéttum raðirnar. Það koma nýir menn inn og svo er það næsti leikur,“ sagði Elvar Ásgeirsson, landsliðsmaður í handknattleik þegar handbolti.is hitti hann á blaðamannafundi sem HSÍ hélt í dag fyrir utan hótel landsliðsins í Búdapest. Rétt áður en fundurinn hófst var tilkynnt að Elliði Snær Viðarsson og Björgvin Páll Gústavsson hafi greinst smitaðir af covid. Sá síðarnefndi í annað sinn.


Sem stendur eru 14 leikmenn klárir í slaginn við Svartfellinga á morgun, lokaleikinn í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik. Flautað verður til leiks klukkan 14.30.

Áfram verður skimað í kvöld og hraðprófað á ný fyrir hádegið á morgun. Sami gangur á og hefur verið síðan íslenska landsliðið kom til Búdapest fyrir hálfum mánuði.


Hvað sem því öllum saman líður þá er mikið undir í leik Íslendinga og Svartfellinga á morgun. Lið beggja þjóða geta náð þriðja sæti riðilsins sem gefur rétt til þess að leika um 5. sæti mótsins. Fimmta sætið getur orðið dýrmætt.

Hugsum bara um okkur

„Stefnan er að taka stigin tvö sem eru í boði sem gefa okkur tækifæri til þess að leika um fimmta sæti mótsins. Svo verður það bara að koma í ljós hvort sigurinn leiði okkur eitthvað lengra. Fyrst og fremst þá hugsum við um okkur sjálfa og leikinn sem er framundan. Lengra getum og megum við ekki hugsa,“ sagði Elvar sem var nýkominn af ítarlegum fundi með þjálfarateymi landsliðsins og leikmönnum þegar hann hitti handbolta.is að máli fyrir utan hótel landsliðsins í Búdapest.

Um margt líkir Króötum

Á fundinum hafði verið farið vel yfir leik Svartfellinga. Elvar segir leik þeirra vera um margt líkan leik Króata sem íslenska landsliðið lék við í gær.


„Leikkerfin eru mörg eins auk þess sem þeir hafa á að skipa miklu skyttuliði. Þeir eru bara mjög sterkir og leika svo sannarlega með hjartanu. Það er mikil ástríða í leik Svartfellinga og samstaðan gríðarlega góð innan liðs þeirra. Það er gaman að horfa á þá vegna þess að þeir leggja sig alla fram eins og segja má um okkur einnig. Þess vegna verður um skemmtilegan leik að ræða. Vonandi náum við að töfra það besta fram í okkar leik,“ sagði Elvar.

Kom hik á okkur

Spurður hvað íslenska landsliðið þurfi að bæta frá viðureigninni við Króata sagði Elvar að sóknarleikurinn verði að batna. „Það á ekki að vera erfitt fyrir okkur því við höfum allt mótið leikið frábæran sóknarleik þar til það kom hik á okkur á kafla í gær.“


Um fimm stundir líða frá því að leik Íslendinga og Svartfellinga verður lokið þangað til að Danir og Frakkar ljúka sinni viðureign. Úrslit þess leiks geta haft mikið að segja fyrir íslenska landsliðið takist því að vinna Svartfellinga. Danskur sigur á Frökkum og íslenskur sigur á Svartfellingum færir íslenska liðinu sæti í undanúrslitum. Elvar segir að þótt langt líði á milli leikja megi ekki velta sér upp úr því fyrirfram.

Hættulegt að hugsa um annað

„Þangað til okkar leik verður lokið þá hugsum við ekki um neitt annað. Það getur verið hættulegt að hugsa um eitthvað annað en það sem snýr að okkur,“ sagði Elvar Ásgeirsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -