- Auglýsing -
- Auglýsing -

Höfum þungar áhyggjur af stöðunni

Aðeins 14 leikmenn voru til reiðu í leikinn við Dani í gær. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Við höfum þungar áhyggjur af stöðunni og ekki dró það úr áhyggjum okkar þegar sjöundi maðurinn í hópnum greindist smitaður í dag eftir hraðpróf. Vonir stóðu til að við værum að ná utan um ástandið þegar öll PCR prófin í gærkvöld reyndust neikvæð. Annað kom á daginn,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ í samtali við handbolta.is í dag. Skiljanlega var þungt hljóð í framkvæmdastjóranum enda segir hann flest ef ekki allt sem snýr að sóttvörnum á mótinu vera nánast í skötulíki.

Tökum einn dag í einu

„Eins og staðan er þá tökum við einn dag í einu. Vonandi verðum við með 16 leikmenn klára í leikinn við Frakka síðdegis á morgun með þeim tveimur sem komu í dag. Þess utan gerum við okkur vonir um að þeir leikmenn sem hafa greinst losni úr einangrun eftir helgina. Þar með gætu einhverjir þeirra tekið þátt í leiknum við Króata eða Svartfellinga á mánudag og á miðvikudag.

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Við erum einnig viðbúnir að til þess geti komið að kalla verði inn fleiri leikmenn ef ástandið versnar áfram,“ sagði Róbert Geir sem telur engar líkur vera á að Evrópumótinu verði slaufað.

Getið þið ekki kallað á fleiri?

„Ég ræddi við forsvarsmann EHF á leiknum við Dani í gær og var spurður til baka hvort ég gæti ekki kallað á fleiri leikmenn. Það er greinilegt að það á ljúka mótinu með öllum ráðum. Eitt og sér er það skoðun út af fyrir sig en menn verða líka að bregðast við aðstæðum. Það hefur ekki verið gert og er með öllu óskiljanlegt,“ segir Róbert sem telur að allt það sem hafi verið lagt í sölurnar fyrir mótið af hálfu allra, jafnt leikmanna sem starfsmanna auk gríðarlegs aukakostnaðar af hálfu sambandsins hafi verið eyðilagt.

Ráðum ekki við aðstæður

„Það lögðust allir á eitt til að halda hópnum hreinum allt þangað til við komum til Búdapest. Þá komum við inn í aðstæður sem við höfum ekki stjórn á þótt innan okkar hóps hafi sóttvarnarreglur verið mun strangari en almennt er þá nægði það ekki til vegna þess að hér eru hlutirnir alls ekki í lagi.“

Björgvin Páll Gústavsson markvörður er einn þeirra sem er í einangrun. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Róbert Geir svarar spurður að svo líti út fyrir sem það hafi komið forsvarsmönnum Handknattleikssambands Evrópu á óvart hversu slæmt ástandið gæti orðið.

Stjórnlaust ástand

„Það virðist vera miðað við takmörkuð svör sem við fáum. Þau eru rýr og oft grátbrosleg þegar kemur að úrlausnarefnum. Eins og staðan er þá virðist ástandið nánast vera stjórnlaust. Á því hóteli sem við búum á hafa í dag komið upp smit í fjórum liðum af sex. Orðrómur er um smit hjá Króötum í dag. Ástandið í riðlum í Bratislava er lítið skárra,“ sagði Róbert bætir við að hann sér hreinlega hættur að botna í einu né neinu.

Allt annað á HM í fyrra

Ástandið á ekki að koma mönnum óvart að sögn Róberts. Aðstæðurnar sem liðin hafa búið við frá fyrsta degi hafa boðið upp á að allt færi úr böndum.

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Aron Pálmarson eru á meðal þeirra sem eru í einangrun. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


„Við höfum reynslu frá HM í Egyptalandi þar sem hvert lið bjó í búbblu og við með mjög strangar sóttvarnir þar sem allt var gert til þess að mótið færi fram með heilsu leikmanna í fyrirrúmi. Í augnablikinu getum við ekki sagt að það sama eigi við um þetta mót. Sóttvarnir á mótinu eru ekkert sérstakar, hvorki á leikstöðum né þar sem liðin búa,“ sagði Róbert og bendir á að þótt almennir gestir búi ekki á hóteli landsliðsins nú eftir að keppni í milliriðlum hófst og liðum sem búa á hótelinu hafi fjölgað úr fjórum í sex. Hinsvegar eru mjög mikil blöndun á milli liðanna.

Allir í sama hlaðborðinu

PCR próf allra liða eru t.d. á fyrstu hæð þar. Þangað verða allir að fara helst tvisvar á dag. Einnnig snæði leikmenn liðanna í sama matsalnum af hlaðborði þar sem allir nota sömu áhöld. HSÍ hafi brýnt fyrir mönnum að vera ósparir á sprittið og að nota einnota hanska í matsalnum. Eins hafi verið brugðið á það ráð að hafa einn mann í hverju herbergi.

Átti að skipta niður á fleiri hótel

„Snertifletirnir eru mjög margir og við erum á fimmtu hæð. Aðbúnaður á hótelinu er ekki góður þegar til þess er litið að þar búa sex lið á sama stað með veiru sem er bráðsmitandi. Í ástandi eins og þessu þá er undarlegt að ekki hafi verið gripið til þess ráðs að skipta liðunum niður á fleiri hótel og loka þeim um leið fyrir almennum gestum,“ segir Róbert og bætti við.

Allt annað í skötulíki

„Ég get vel skilið að ákveðið hafi verið að leika fyrir framan áhorfendur á öllum stöðum enda gjörbreytir það umgjörðinni auk þess sem mikil fjarlægð er á milli áhorfenda og leikmanna. Þar af leiðandi er smithætta lítil. Hinsvegar er bara allt annað sem snýr að sóttvörnum á mótinu, jafnt á leikstöðum sem á hótelum, í skötulíki,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ í samtali við handbolta.is um miðjan daginn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -