- Auglýsing -
- Auglýsing -

Í dag erum við kannski ekki betri

Daði Laxdal Gautason t.h. ásamt samherjum sínum við upphafi keppnistímabilsins síðasta haust. Mynd/Tinna
- Auglýsing -

„Við erum kannski ekki betri en þetta eins og staðan er í dag,“ sagði Lárus Gunnarsson, þjálfari Kríu í samtali við handbolta.is, eftir tap Kríu, 31:27, fyrir ungmennaliði Vals í Grill 66-deildinni í Origohöllinni á Hlíðarenda í gær.
Valur með tögl og hagldir í leiknum frá upphafi, ekki síst í síðari hálfleik þegar munurinn varð mestur sjö mörk.


Kría vann ungmennalið Fram og nýliða Harðar frá Ísafirði í tveimur fyrstu umferðum Grill 66-deildarinnar. Lárus segir að þrátt fyrir sigrana í leikjunum tveimur hafi brotalamir verið í leik Kríunnar sem hafi e.t.v. kristallast í leiknum við ungmennalið Vals.


„Við komumst upp með þessar brotalamir í fyrstu tveimur leikjunum en svo sannarlega ekki að þessu sinni. Valur U hafnaði í þriðja sæti Grill-deildarinnar á síðasta keppnistímabili og eru með gott lið. Við erum nýliðar í þessari deild og erum um þessar mundir kannski ekki betri en raun ber vitni um,“ sagði Lárus sem hefur nokkra reynslumenn innan sinna raða. Hann segir að e.t.v. verði menn að líta inn á við og athuga hvort þeir þoli þá pressu sem þeir hafi sjálfir teki þátt í að mynda, m.a. á samfélagsmiðlum.

Meðvitað að vera áberandi

„Við höfum meðvitað verið áberandi í umræðunni og þannig reynt að vekja athygli á okkur. Þetta snýst svolítið um að ráða við þessa pressu og umræðu. Fyrir mig sem þjálfara var kannski það besta sem gat gerst á þessum tímapunkti að tapa leiknum í dag. Við verðum að læra að tapa sem sýnir að við löbbum ekki í gegnum deildina, það er klárt mál.“
Lárus segir næsti leikur Kríu verði ekki fyrr en eftir hálfan mánuð. Þangað til gefist tími til að bæta úr skák. Hann sér einnig ljósa punkta í frammistöðu liðsins.


„Öll þessi meiriháttar mistök sem við gerðum í leiknum er þess eðlis að við getum auðveldlega ráðið á þeim bót. Við fórum illa með mörg dauðafæri auk þess sem við misstum boltann mjög oft á afar einfaldann og klaufalegan hátt. Það var ekki eins Valur hafi yfirspilað okkur í leiknum. Fyrst og fremst er um að ræða heimatilbúinn vanda.“

Tjalda ekki til einnar nætur


Kría er með bækistöðvar á Seltjarnarnesi og margir af þeim sem að liðinu standa eiga rætur í Gróttu. Lárus segir talsvert vera lagt í félagið og víst að ekki sé verið að tjalda til einnar nætur.


„Við viljum bjóða mönnum upp á vettvang þar sem þeir geta leikið með liði sem tekur þátt í keppni í Grill 66-deildinni. Skipulagðar æfingar í sal eru tvær í viku en þess utan þá bera menn ábygð á sjálfum sér og æfa þá einir eða í smærri hópum til viðbótar við skipulagðar æfingar Kríu. Við stöndum og föllum með þessu fyrirkomulagi.


Árið í ár er annað keppnisár Kríu. Reyndar vorum við ekki með í Grill-deildinni á síðasta keppnistímabili. Með þessu fyrirkomulagi þá hefur safnast til okkar margir leikmenn sem hafa leikið í Olísdeildinni og með yngri landsliðunum. Menn með sigurvilja enda erum við ekki með í deildarkeppninni til annars en að vinna þótt það takist ekki alltaf. Hvort sem niðurstaðan verður sú í vor að við förum upp í Olísdeildina eða verðum áfram í Grill 66-deildinni þá munum við sem að liðinu stöndum halda áfram að vinna samkvæmt þeirri hugmyndafræði sem að baki liðinu býr,“ segir Lárus Gunnarsson, þjálfari Kríu í Grill 66-deild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -