ÍBV er í góðum málum

Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

ÍBV er komið í góða stöðu eftir annan sigur sinn á Haukum, 27:23, í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik í Vestmannaeyjum í kvöld. ÍBV hefur þar með tvo vinninga í rimmunni en Haukar engan. Eyjamönnum vantar þar með einn vinninginn til þess að tryggja sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins. Næsta viðureign verður á Ásvöllum á laugardaginn og hefst klukkan 18.


ÍBV var með yfirhöndina frá upphafi til enda leiksins í kvöld og var sigurinn öruggur. Haukum tókst aldrei að leysa frábæran varnarleik ÍBV-liðsins sem braut hverja sóknina á fætur annarri. Vinnslan á varnarmönnumum var hreint út sagt mögnuð. Þeir lokuðu á sóknarmenn Hauka á löngum köflum í báðum hálfleikum. Ekki bætti úr skák að Haukar gerðu talsvert af einföldum mistökum þegar einhver von gat kveiknað í þeirra brjóstum, ekki síst þegar á leið síðari hálfleikinn og aðeins dró af leikmönnum ÍBV.


Staðan í hálfleik var 16:11. ÍBV skoraði tvö fyrstu mörkin í síðari hálfleik og sendi sterk skilaboð til gestanna. Haukum tókst að minnka muninn í fjögur mörk í síðari hálfleik, 23:19. Nær komust þeir ekki og virtust aldrei vera mjög líklegir til þess að snúa taflinu sér í vil.


Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 8, Sigtryggur Daði Rúnarsson 5/4, Elmar Erlingsson 4, Sveinn Jose Rivera 3, Gauti Gunnarsson 1, Friðrik Hólm Jónsson 1, Kári Kristján Kristjánsson 1, Arnór Viðarsson, Ásgeir Snær Vignisson 1, Gabríel Martinez Róbertsson 1, Petar Jokanovic 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 9, 28,1% – Björn Viðar Björnsson 1/1, 100%.

Mörk Hauka: Brynjólfur Snær Brynjólfsson 5, Stefán Rafn Sigurmannsson 5/2, Adam Haukur Baumruk 4, Guðmundur Bragi Ástþórsson 4, Heimir Óli Heimisson 2, Ólafur Ægir Ólafsson 1, Atli Már Báruson 1, Ihor Kopyshynskyi 1.
Varin skot: Stefán Huldar Stefánsson 8/1, 27,6% – Magnús Gunnar Karlsson 0.


Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -