- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÍBV tyllti sér á toppinn

Birna Berg Haraldsdóttir leikmaður ÍBV. Mynd/Facebooksíða ÍBV
- Auglýsing -

ÍBV tyllti sér á topp Olísdeildar kvenna í handknattleik í dag þegar liðið lagði Val, 23:22, í hörkuleik í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum. Valur var marki yfir í hálfleik, 11:10. ÍBV hefur þar með fimm stig að loknum þremur leikjum og er eina taplausa lið deildarinnar.

Valur er með fjögur stig eins og Fram og Stjarnan í öðru til fjórða sæti.

Það mátti vart á milli sjá í leik liðanna í Vestmannaeyjum í dag sem var hnífjafn og bráðskemmtilegur en nokkuð kaflaskiptur.

Sunna Jónsdóttir, besti leikmaður ÍBV í leiknum, kom ÍBV þremur mörkum yfir, 23:20, þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Mariam Eradze minnkaði muninn í tvö mörk skömmu síðar og Auður Ester Gestsdóttir skoraði 22. mark Vals þegar um tvær mínútur voru eftir af leiktímanum. Talsverður darraðardans var stiginn í lokin en hann varð ekki til þess að mörkin yrði fleiri og ÍBV fagnaði sigri og efsta sæti deildarinnar nú þegar nærri hálfs mánaðar hlé verður gert á keppni í Olísdeildinni.

Sunna Jónsdóttir skoraði 10 mörk fyrir ÍBV og var markahæst. Birna Berg Haraldsdóttir var næst með sex mörk og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði fjögur mörk. Ásta Björt Júlíusdóttir skoraði tvö mörk og Kristrún Hlynsdóttir 1.

Mariam Eradze og Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Val og voru markahæstar. Elín Rósa Magnúsdóttir og Ragnhildur Edda Þórðardóttir skoruðu þrjú mörk hvor. Systurnar Lilja og Ásdís Þóra Ágústsdætur skoruðu tvö mörk hvor og einnig Lovísa Thompson. Auður Ester Gestsdóttir og Hildur Björnsdóttir skoruðu eitt mark hvor.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -