ÍR-ingar heiðra einn sinn tryggasta sjálfboðaliða

Loftur Bergmann Hauksson fyrir miðri mynd ásamt Ólafi Malmquist, fyrirliða karlaliðs ÍR t.v., og Andra Heimi Friðrikssyni leikmanni og aðstoðarþjálfara karlaliðsins. Mynd/ÍR.

Sjálfboðaliðar eru kjölfesta í starfi íþróttafélaga og margir starfa árum saman fyrir félagið sitt af hugsjón, ánægju og gleði. Án sjálfboðaliða væri starfsemi margra félaga harla fátækleg.


Einn dugmikilla sjálfboðaliða innan handboltafjölskyldunnar er ÍR-ingurinn Loftur Bergmann Hauksson. Hann fagnaði á dögunum 80 ára afmæli. Loftur hefur verið, og er óþreytandi í starfi fyrir handknattleiksdeild ÍR, um árabil. Hefur hann m.a. séð um miðasöluna á kappleikjum ÍR.


ÍR-ingar notuðu tækifærið fyrir síðasta heimaleikinn í Grill66-deild karla á föstudagskvöldið og afhentu Lofti viðurkenningar- og þakklætisvott frá félaginu í tilefni 80 ára afmælisins.


„Það er ómetanlegt fyrir okkur ÍR-inga að hafa svona öflugan sjálfboðaliða eins og Loft í okkar röðum sem bregður sér í öll störf ef eitthvað vantar,“ segir m.a. í tilkynningu handknattleiksdeildar ÍR.


Ólafur Malmquist, fyrirliði karlaliðs ÍR, og Andri Heimir Friðriksson leikmaður og aðstoðarþjálfari karlaliðs ÍR afhentu Lofti þakklætisvottinn fyrir hönd félagsins.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -