- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fjórtánmenningarnir gerðu hvað þeir gátu

Íslensku strákarnir þakka hluta af íslensku stuðningsmönnunum fyrir. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Vængbrotið og ungt íslenskt landslið veitti tvöföldum heimsmeisturum Dana verðuga keppni í fyrstu umferð milliriðlakeppni Evrópumóts karla í handknattleik í kvöld. Danska liðið vann með fjögurra marka mun, 28:24, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14.


Danir og Frakkar eru þar með komnir með fjögur stig eftir fyrstu umferð í milliriðli eitt. Ísland og Svartfjallaland hafa tvö stig hvort og Króatar og Hollendingar reka lestina án stiga.

Eftir allt það sem á undan hefur gengið í herbúðum íslenska landsliðsins síðasta sólarhringinn þar sem hryggjarstykkið hefur orðið kórónuveirunni að bráð var til of mikils ætlast að vinna Dani að þessu sinni. Þeir fengu hinsvegar leik og sennilega þann erfiðasta í mótinu til þessa.

Ýmir Örn Gíslason fyrirliði og Elliði Snær Viðarsson. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Fyrstu 20 mínúturnar hélt íslenska liðið í við það danska. Upp úr því losnaði aðeins um í varnarleiknum auk þess sem Kevin Möller birtist í danska markinu og tók að verja allt hvað af tók. Upp úr þessu skapaðist forskot danska liðsins að loknum fyrri hálfleik, 17:14.


Íslensku piltarnir héldu í við Dani á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleik. Upp því tóku Danir skref frá íslenska liðinu og hélt því í hæfilegri fjarlægð til loka.

Arnar Freyr Arnarsson og Ágúst Elí Björgvinsson. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Með 14 leikmenn, nokkra sem aldrei hafa stigið á inn á svið Evrópumóta fyrr, var niðurstaðan viðunandi úr því að leikurinn tapaðist á annað borð. Íslenska liðið fékk alls ekki skell eins og sumir óttuðust eftir að leikmennirnir sex tíndust einn af öðrum úr hópnum eftir því sem nær dró viðureigninni. Þar með breyttust allar forsendur.

E.t.v. hefði mátt gera eitt og annað öðruvisi eins og setja Daníel Þór Ingason fyrr til höfuðs hinum stórhættulega Mathias Gidsel. Allt orkar tvímælis þá gert er.

Janus Daði Smárason hélt dönsku varnarmönnunum við efnið. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Mörk Íslands: Ómar Ingi Magnússon 8/1, Janus Daði Smárason 4, Elvar Ásgeirsson 3, Arnar Freyr Arnarsson 2, Orri Freyr Þorkelsson 2, Teitur Örn Einarsson 2, Daníel Þór Ingason 1, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1, Elliði Snær Viðarsson 1.
Varin skot: Ágúst Eli Björgvinsson 3/2, Viktor Gísli Hallgrímsson 2.

Mörk Dana: Mathias Gidsel 9, Lasse Svan 5, Mikkel Hansen 5/4, Emil Jakobsen 4, Magnus Saugstrup 3, Rasmus Lauge 1, Magnus Landin 1.
Varin skot: Kevin Möller 14, 53,8% – Niklas Landin 2, 14,3%.

Handbolti.is var MVM Dome og fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -