- Auglýsing -
- Auglýsing -

Strákarnir kláruðu sitt verkefni – nú er að bíða og vona

Elvar Ásgeirsson vinnur boltann og snýr vörn í sókn. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Leikmenn íslenska landsliðsins kláruðu sitt verk í lokaumferð milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik er þeir unnu mjög sannfærandi sigur á Svartfellingum, 34:24, í MVM Dome íþróttahöllinni í Búdapest í dag. Þar með er ljóst að íslenska landsliðið leikur amk um fimmta sæti mótsins á föstudaginn.

Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Hvort liðið nær alla leið í undanúrslit kemur í ljós upp úr klukkan níu í kvöld þegar viðureign Dana og Frakka verður lokið. Vinni Danir leikinn kemur sæti í undanúrslitum EM í hlut íslenska landsliðsins og þar með leikur við Spánverja á föstudaginn.


Ef íslenska landsliðið leikur um fimmta sætið þá verður andstæðingurinn Noregur.


Íslensku leikmennirnir léku afar vel og gerðu út um möguleika Svartfellinga strax í fyrri hálfleik. Varnarleikurinn var mjög góður, Viktor Gísli Hallgrímsson frábær í markinu. Sóknarleikurinn hraður auk þess sem mörg hraðaupphlaup gáfust. Svartfellingar réðu ekki neitt við neitt og voru níu mörkum undir í hálfleik, 17:8.


Framan af síðari hálfleik þá náðu Svartfellingar aðeins að minnka muninn, mest niður í fimm mörk. Nær komust þeir ekki og ungir og frískir leikmenn íslenska landsliðsins stungu af á nýjan leik og unnu stórsigur.

Bjarki Már Elísson mætti til leiks á ný og skoraði átta mörk átta skotum. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Afar gleðilegt var að fá Aron Pálmarsson, Bjarki Má Elísson og Elvar Örn Jónsson inn í liðið á ný eftir fjarveru. Aron fór snemma af leikvelli meiddur eftir að hafa skorað tvö mörk. Bjarki Már átti frábæran leik. Elvar lék vel framan af en virtist þreytast þegar á leið.


Magnús Óli Magnússon kom ferskur til leiks og lagði mikið í púkkið. Sömu sögu er að segja um Þráinn Orra Jónsson sem lék eins og hann væri að leika sinn 100. landsleik, ekki númer tvö. Elvar Ásgeirs var frábær eins og Ómar Ingi, sem varð skiljanlega orðinn lúinn þegar á leið leikinn. Darri Aronsson, Kristján Örn Kristjánsson Donni, Teitur Örn Einarsson settu mark sitt á leikinn þótt tími þeirra á leikvellinum væri e.t.v. nokkuð skammur.

Þráinn Orri Jónsson stóð í ströngu jafnt í vörn sem sókn. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Viktor Gísli varði vel í 40 minútur.


Nú er bara að bíða og vona.


Mörk Íslands:
Ómar Ingi Magnússon 11/5, Bjarki Már Elísson 8, Elvar Ásgeirsson, 3, Ýmir Örn Gíslason 2, Elvar Örn Jónsson 2, Aron Pálmarsson 2, Þráinn Orri Jónsson 2, Darri Aronsson 1, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1, Teitur Örn Einarsson 1, Kristján Örn Kristjánsson (Donni) 1.

Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 11, 36,7% – Ágúst Elí Björgvinsson 2, 28,6%.


Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -