KA-piltar eru Partille Cup meistarar – annað gull Stefáns

Sigurglaðir leikmenn KA eftir að hafa tekið við verðlaunum sínum í sólinni í Partille í dag. Mynd/Aðsend

KA varð í dag Partille Cup meistari í handknattleik karla í B16 ára flokki, 4. flokkur eldra ár, eftir sigur á sænska liðinu Önnered, 15:10, í úrslitaleik eftir hádegið í dag. Sannarlega glæsilegur sigur hjá KA-liðinu sem hefur haft talsverða yfirburði hér heima. Varð liðið m.a. Íslands-, deildar og bikarmeistari á síðasta keppnistímabili.


Þar með kemst KA-liðið í hóp örfárra íslenskra félagsliða sem í gegnum tíðina hefur unnið til gullverðlauna í sínum aldursflokki á Partille cup sem er árlegt handknattleiksmót barna og unglinga sem fram fer í Gautaborg.


Um 600 Íslendingar tóku þátt í mótinu og voru yfir 50 íslensk lið með frá a.m.k. 12 félögum. Þátttökulið koma víðsvegar að úr heiminum og skipta þátttakendur þúsundum ár hvert.

Hinn sigursæli þjálfari KA, Stefán Árnason, með verðlaunagripin á Partille cup. Mynd/Facebooksíða Partille

Stefán Árnason þjálfari piltanna, sem nú er að kveðja KA og flytja suður, var að vinna Partille Cup í annað sinn. Hann stýrði einnig liði Selfoss sem vann sinn aldursflokk á mótinu fyrir nokkrum árum. Meðal leikmanna í því liði voru Elvar Örn Jónsson og Ómar Ingi Magnússon, atvinnumenn í Þýskalandi í dag og landsliðsmenn.


Auk Stefáns er Heimir Örn Árnason þjálfari liðsins.


Í undanúrslitum vann KA-liðið danskt félagslið, Team Favrskov Handboll. Mun vera svo langt síðan að danska liðið tapaði síðast kappleik að menn rekur vart minni til þess, eftir því sem handbolti.is hefur fregnað.

FH-ingar unnu bronsverðlaun

Fjöldi íslenskra liða tekur þátt í Partille cup mótinu sem lýkur í dag með úrslitum í hverjum aldursflokki.

Afturelding tók einnig þátt í B16 flokki eins og KA. Afturelding féll út í 8-liða úrslitum.

Haukar komust í 16 liða í B14 en duttu þar úr keppni eftir mjög jafnan leik gegn Fram sem fór áfram í 8 liða úrslit.

Í 8 liða í B14 tapaði Fram í hörkuleik gegn Leipzig sem urðu svo meistarar í aldursflokknum.

FH B14 flokki pilta tapaði í undanúrslitum fyrir danska félaginu Hjörtsöj Egå, 15:12. Þýska stórliðið SC DHfK Liepzig sigraði síðan danska liðið í úrslitaleik, 17:13.

Stjarnan var með í B13 flokki pilta og tapaði í 8-liða úrslitum fyrir sænska liðinu Önnereds.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -