KA skoraði fjögur síðustu mörkin í Krikanum

KA-mennirnir Daði Jónsson (17) og Einar Birgir Stefánsson í baráttu við Ágúst Birgisson, línumann FH í leiknum í Kaplakrika í kvöld. Mynd/ J.L.Long

FH-ingar fóru illa að ráði sínu í kvöld þegar þeir misstu niður fjögurra marka forskot á lokamínútum leiksins við KA í Olísdeildinni í handknattleik í kvöld þegar liðin mættust í Olísdeild karla. Andri Snær Stefánsson, þjálfari kvennaliðs KA/Þórs skoraði jöfnunarmark KA í Krikanum í kvöld úr vítakasti, 31:31. KA skoraði fjögur síðustu mörk leiksins og fór með eitt stig í pokahorninu norður yfir heiðar.


Markvörðurin Phil Döhler skoraði 31. mark FH þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka, 31:27 og FH-ingar voru líklegri til að hirða stigin tvö sem voru í boði eftir að hafa verið með yfirhöndina alla síðari hálfleikinn, m.a. 15:13, þegar hann hófst.

Einar Rafn Eiðsson í þann mund að senda boltann til Ágústs Birgissonar línumanns FH. KA-mennirnir Ragnar Snær Njálsson og Ólafur Gústafsson verjast af krafti. Mynd/Jóhannes Long.


KA-menn voru hinsvegar ólseigir og alls ekki tilbúnar að gefa eftir átakalaust. Allan Nordberg skoraði 28. markið úr hægra horni rétt eftir að Döhler hafði skoraði 31. mark FH. Allt tógið fór í skrúfuna hjá FH-ingum á lokakaflanum. Hver sóknin rann út í sandinn á fætur annarri. Jón Heiðar Sigurðsson skoraði 29. mark KA og Ólafur Gústafsson, fyrrverandi FH, bætt 30. marki KA við þegar rúm mínúta var eftir og tvær sóknir FH í röð höfðu farið forgörðum.

Mikið gekk á undir lokin. Leonharð Þorgeir Harðarson, FH-ingur fékk rautt spjald fyrir brot á Daða Jónssyni sem fékk vítakastið sem Andri Snær skoraði jöfnunarmarkið úr á síðustu sekúndum.

Ásbjörn Friðriksson, FH-ingur í þann mund að skora eitt sex marka sinn í kvöld framhjá Svavari Inga Sigmundssyni, markverði KA. Mynd/Jóhannes Long.


FH hefur þar með níu sig eins og ÍBV og Afturelding í öðru til fjórða sæti og stigi á eftir Haukum sem tróna á toppnum eftir leiki kvöldsins. Valur er í fimmta sæti með átta stig og Selfoss þar á eftir með sjö stig en á einn til tvo leiki til góða á liðin fyrir ofan.


Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 7, Ásbjörn Friðriksson 6/4, Leonharð Þorgeir Harðarson 5, Birgir Már Birgisson 2, Jón Bjarni Ólafsson 2, Ágúst Birgisson 2, Einar Örn Sindrason 2, Benedikt Elvar Skarphéðinsson 2, Phil Döhler 2, Arnar Freyr Ársælsson 1.
Varin skot: Phil Döhler 11 skot, 26,2%.

Mörk KA: Einar Birgir Stefánsson 8, Ólafur Gústafsson 7, Allan Nordberg 5, Jón Heiðar Sigurðsson 4, Árni Bragi Eyjólfsson 3, Andri Snær Stefánsson 2, Áki Egilsnes 1.
Varin skot: Svavar Ingi Sigmundsson 6 skot, 31,6% – Nicholas Satchwell 5 skot, 25%.

Varði Phil Döhler eða varði hann ekki skot Árna Braga Eyjólfssonar? Mynd/Jóhannes Long

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -