- Auglýsing -
- Auglýsing -

KA/Þór á ekki að sitja uppi með óskiptan kostnað

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Handknattleiksdeild Stjörnunnar hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna dóms Áfrýjunardómstóls HSÍ í síðustu viku þar sem niðurstaðan var sú að endurtaka skuli viðureign Stjörnunnar og KA/Þórs í Olísdeild kvenna. Stjarnan segir m.a. í yfirlýsingu sinni sem barst handbolta.is í morgun, að KA/Þór eigi ekki að sitja uppi með kostnað við endurtekningu á leiknum. Lagt hafi verið til að HSÍ styrki félagið og eins sé Stjarnan tilbúin að hlaupa undir bagga. Kröfum um bætur vegna málflutningskostnaðar hafnar Stjarnan.

Yfirlýsingu handknattleikdeildar Stjörnunnar má lesa hér fyrir neðan:

„Kvennaráð KA/Þórs á ekki að sitja uppi með óskiptan kostnað við endurtekningu leiks
Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið í gangi varðandi leik Stjörnunnar og Kvennaráðs KA/Þórs þá telur stjórn handknattleiksdeildar Stjörnunnar mikilvægt að koma eftirfarandi atriðum á framfæri.


Aðskilnaður dómsmáls og endurtekningu leiks
Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að skilja að í umræðunni annars vegar atvik, í leik Stjörnunnar og Kvennaráðs KA/Þórs 13. febrúar s.l. sem deilt var um í málflutningi og hefur verið úrskurðað um af hálfu áfrýjunardómstóls HSÍ og hins vegar hvernig standa skuli að endurtekningu leiksins og kostnaði við hann.


Dómurinn er faglegur og handboltanum til heilla
Stjórn handknattleiksdeildar Stjörnunnar telur staðfestan dóm vera faglegan, byggja á sterkum lagalegum rökum og sé handboltanum til heilla. Því má ekki gleyma að Stjarnan sækir málið m.a. út frá þeim forsendum að fá eitt stig úr leiknum enda skoruðu bæði lið 26 mörk og jafntefli því úrslit miðað við það sem raunverulega gerðist á vellinum. En leikurinn skal endurtekinn samkvæmt staðfestum dómi og þar getur brugðið til beggja vona en við eigum von á hörkuleik.


Endurtekning á leiknum – eitt lið á ekki að bera kostnaðinn
Ef endurtaka þarf leik líkt og dæmt hefur verið um í þessu tilfelli og eða öðrum sambærilegum þá teljum við hjá Stjörnunni ekki heppilegt að annað liðið sitji uppi með kostnað við það, líkt og væri raunin fyrir Kvennaráð KA/Þórs ef ekki koma til aðgerðir.
Þess má geta að um leið og dómur var staðfestur af áfríunarnefnd HSÍ sendi stjórn Stjörnunnar beiðni til HSÍ um að Kvennaráð KA/Þór hliti sérstakan styrk frá HSÍ sem næmi ferðkostnaði suður og aftur heim. Til vara er Stjarnan tilbúin að greiða helming þess kostnaðar sem sannarlega fellur til og er í samræmi við þann ferðakostnað sem Stjarnan ber við akstur og annað við ferðir norður og heim.


Málflutningskostnaður
Stjórn handknattleiksdeildar hafnar hins vegar öllu tali um bætur vegna málflutningskostnaðar og fordæmir tilburði við að sækja hann til málsaðila eftir að dómur hafi verið staðfestur, enda hafi það verið ákvörðun Kvennaráðs KA/Þórs að ráða lögfræðing til að annast málflutning fyrir þeirra hönd. Þess má geta að það var stjórnarfólk handknattleiksdeildar Stjörnunnar vann að og flutti umrætt mál, af ástríðu og virðingu fyrir staðreyndum máls og þeim lögum og reglum sem í gildi eru hjá HSÍ, enda rekstur íþróttafélaga áskorun þar sem nýta þarf hverja krónu afar vel og ráðning lögfræðinga á fárra færi ef nokkurra. Þess ber að geta að málflutningur í gegnum fjarfundabúnað hefði verið kostur á öllum stigum máls sem Stjarnan hefði ekki sett sig upp á móti enda var slíkur búnaður notaður á ákveðnum stigum málsins.


f. h. stjórnar handknattleiksdeildar Stjörnunnar
Lárus Halldórsson
varaformaður.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -