- Auglýsing -

Kapphlaup Íslendingaliðanna heldur áfram

Kapphlaup Íslendingaliðanna Sjerpen HK Skien og Volda um efsta sætið í norsku 1. deildinni í handknattleik heldur áfram. Bæði unnu þau örugga sigra í dag og heldur Gjerpen efsta sætinu á sjónarmun. Hvort lið hefur 23 stig að loknum 13 umferðum. Haslum Bærum er í þriðja sæti fimm stigum á eftir en á að vísu einn leik til góða upp í erminni.


Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði þrjú mörk og var einu sinni vísað af leikvelli þegar Gjerpen vann Charlottenlund SK, 34:28, á heimavelli síðarnefnda liðsins austur af Þrándheimi. Gjerpen var þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14. Leikmenn Charlottenlund SK náðu góðu áhlaupi í upphafi síðari hálfleiks áður en Sara Dögg og félagar náðu vopnum sínum á nýjan leik.


Volda vann Óslóarliðið Nordstrand á heimavelli, Volda Campus Sparebank1 Arena, 37:26. Katrín Tinna Jensdóttir skorað ekki mark en var föst fyrir í vörninni og var m.a. einu sinni vísað af leikvelli. Volda-liðið sem Halldór Stefán Haraldsson þjálfar var með sex marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 20:14, og var með tögl og hagldir frá upphafi til enda. Hilmar Guðlaugsson var að vanda Halldóri Stefáni til halds og trausts.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -