- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kom mér ekki á óvart

Andri Már Rúnarsson er á leiðinni til Hauka. Mynd/EHF Kolektiffimages
- Auglýsing -

„Mesta breytingin var örugglega að flytja út til Þýskalands og búa einn en ég hef vanist því núna,“ segir Andri Már Rúnarsson handknattleiksmaður hjá þýska 1. deildarliðinu Stuttgart og einn leikmanna U20 ára landsliðsins sem síðar í vikunni hefur keppni á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Porto.

Fjögurra ára samningur

Andri Már, sem stendur á tvítugu, gekk til liðs við Stuttgart í ágúst á síðasta ári og skrifaði undir fjögurra ára samning. Fyrsta árið er að baki. Andri Már segir það hafa verið lærdómsríkt en hann búi að því að hafa átt heima í Þýskalandi um árabil sem barn og unglingur meðan faðir hans, Rúnar Sigtryggsson, starfaði þar við þjálfun handknattleiksliða á árunum 2012 til 2018.

Fékk fleiri tækifæri en við var búist

„Gæðin á æfingum ytra eru meiri og auðvitað mikið meiri í leikjunum samanborið við það sem gerist hér heima. Mér hefur bara gengið vel og fékk ég til að mynda að spila mikið meira en ég reiknaði með, ekki síst framan af tímabilinu þegar margir leikmenn voru frá vegna meiðsla. Við vorum til dæmis án örvhentrar skyttu fyrstu vikurnar á tímabilinu og þurftum að leysa það með ýmsum ráðum,“ segir Andri Már en handbolti.is hitti hann fyrir æfingu landsliðsins í Víkinni í gær.

Áður en Andri Már fór til Stuttgart lék hann með Stjörnunni 2018 til 2020 og var hjá Fram leiktíðina 2020/2021. Andri Már var markahæsti leikmaður Fram í Olísdeildinni með 100 mörk í 22 leikjum.
Fyrir Evrópumótið í Ungverjalandi í janúar var Andri Már í 35 manna leikmannahópnum sem Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari valdi

Var mjög erfitt – mikil samkeppni

„Ég gerði mér grein fyrir að það yrði ekki auðvelt að koma inn í deildina. Ég hef fylgst með þýsku deildinni síðan ég var lítill og var að fara með pabba á æfingar þegar hann var að þjálfa lið í þýsku 1. deildinni. Þess vegna kom þetta mér ekki óvart. Þetta var allt jafn erfitt og ég bjóst við,“ sagði Andri Már. Spurður hvort samkeppnin væri mikil innan liðsins svaraði hann.

Andri Már Rúnarsson ógnar vörn Dana í vináttuleik á Ásvöllum í mars. Mynd/HSÍ

Engin tilviljun

„Samkeppnin er mikil enda er að minnsta kosti tveir leikmenn um hverja stöðu. Hver og einn leikmaður er ekki að ástæðulausu í liðinu. Um leið og menn slaka á þá fá þeir að finna fyrir því. Allir eru atvinnumenn sem gefa ekkert eftir. Samhliða mikilli samkeppni verða gæði æfinganna meiri,“ sagði Andri Már sem kann vel við lífið ytra og hinn harða heim atvinnumennskunnar.

Andri Már var í leikmannahópi Stuttgart í öllum 34 leikjum liðsins í þýsku 1. deildinni á síðasta keppnistímabili. Hann skoraði 27 mörk, átti 10 stoðsendingar og var með 64% skotnýtingu.

Stuttgart gekk ekki sem best lengst af keppnistímabilsins og var um skeið í fallsæti. Endaspretturinn var góður og liðið komst vel fyrir vind þegar nokkuð var eftir af mótinu og leikur þar með áfram í deild þeirra bestu.

Talsverð spenna í loftinu

„Á tímabili ríkti talsverð spenna vegna stöðunnar. Andinn innan leikmannahópsins hefur alltaf verið góður. Utan vallar fann maður hinsvegar að pressan var orðin mjög mikil og margir leikmenn liðsins voru aðeins með samning ef liðið væri áfram í fyrstu deild. Menn voru að leika fyrir lífi sínu, ef svo má segja. Um skeið vorum við í fallsæti og þá dauft í mörgum hljóðið. Þegar allt fór að smella saman síðustu vikurnar þá var brúnin fljót að léttast. Annars hafði ég aldrei áhyggjur af því að við myndum falla. Við vorum með það gott lið. Spurningin var bara að vera með alla heila. Um leið og það gerðist þá myndum við ná okkur á strik sem og gerðist,“ sagði Andri Már.

Halda í ræturnar í Bittenfeld

Stuttgart-liðið heldur í rætur sínar í Bittenfeld, rétt utan borgarinnar, en þar æfir það. Heimaleikirnir í deildinni fara hinsvegar fram í Porsche-Arena í Stuttgart sem rúmar um 7.000 áhorfendur í sæti. „Ég bý nærri æfingahúsinu okkar í Bittenfeld. Það er ekki langt á æfingar. Mér líkar vel við lífið ytra. Ég tel mig hafa tekið miklum framförum á síðasta ári,“ sagði Andri Már Rúnarsson sem verður á næstunni í eldlínunni með íslenska landsliðinu, U20 ára, á Evrópumótinu í Porto. Fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður á fimmtudaginn gegn Serbum.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -