Komast þrjú Íslendingalið í undanúrslit?

Teitur Örn Einarsson er sagður vera á leið til þýska stórliðsins Flensburg. Mynd/IFK Kristianstad - Kimme Persson Fotograf, Studio 11

Það verður sannkallaður Íslendingaslagur þegar leikið verður í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik karla 13. og 20. apríl. Sænska liðið IFK Kristianstad, sem Ólafur Andrés Guðmundsson og Teitur Örn Einarsson leika með mæta Ómari Inga Magnússyni og samherjum í SC Magdeburg. Fyrri viðureignin fer fram í Svíþjóð.


Fleiri Íslendingar verða í eldlínu keppninnar þegar átta liða úrslitin fara fram. Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í GOG, sem í gær varð danskur deildarmeistari í fyrsta sinn í 15 ár, leika gegn pólska liðinu Wisla Plock. Liðin mætast á heimavelli GOG 13. apríl og í Póllandi viku síðar.


Ýmir Örn Gíslason og liðsfélagar hans í Rhein-Neckar Löwen mæta rússneska liðinu Chekhovskie Medevedi og eiga síðari leikinn á heimavelli í Mannheim í Þýskalandi.


Fjórða viðureign átta liða úrslita verður á milli franska liðsins Montpellier og þýska liðsins Füchse Berlín.


Fjögur þessa liða komast áfram í úrslitahelgi Evrópudeildarinnar sem til stendur að fari fram 22. og 23. maí. Ekki er hægt að útiloka að þrjú af fjórum liðunum sem leika til úrslita í keppninni verði með innan sinna raða íslenska handknattleiksmenn.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -