Kostnaður yngri landsliða um 50 milljónir – iðkendur greiða um tvo þriðju

U18 ára landslið kvenna tekur þátt í HM í sumar. Kostnaður við þátttökuna er um átta milljónir króna. Mynd/HSÍ

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, segir að kostnaður vegna þátttöku yngri landsliðanna á ýmsum mótum í sumar nemi um 50 milljónum króna. Inni í upphæðinni er ekki laun þjálfara og annarra aðstoðarmanna auk ýmiskonar annars kostnaður s.s. tryggingar, kaup á sjúkravörum, búningar, rútuferðir og fleira.


„Iðkendur greiða um tvo þriðju af þessum 50 milljónum en um þriðjungur kemur í hlut HSÍ,“ sagði Róbert í samtali við handbolta.is. „Við höfum reynt að auka hlut sambandsins jafnt og þétt á síðustu árum með sérstakri fjáröflun á okkar vegum. Það eru ekki mörg ár síðan að allur kostnaður féll á iðkendur,” sagði Róbert og bætir við.

Sama sagan nær allstaðar

„Við þurfum að gera betur á næstu árum og draga úr kostnaði iðkenda okkar. Öll sérsambönd ÍSÍ að einu undanskildu glíma við þennan vanda, það er að yngri iðkendur verða að greiða allan eða nær allan kostnað við þátttöku á erlendum mótum fyrir Íslands hönd,“ sagði Róbert Geir.

Ekki tíundi hluti úr afrekssjóði

Fjórar milljónir króna af stuðningi afrekssjóðs ÍSÍ við HSÍ á þessu ári eru eyrnamerktar yngri landsliðum. Framlag afrekssjóðs nær þar með ekki að vera tíundi hluti útgjaldanna.

Gengur upp

Róbert segir að sem betur fer ekki hafi komið til þess að ungmenni hafi dregið sig út úr landsliðinu þar sem þau hafi ekki ráðið fram úr þeim kostnaði sem þátttökunni fylgir. Flest sveitarfélög styðja við bakið á ungu landsliðsfólki auk þess sem fyrirtæki hafa mörg hver tekið afar vel í að leggja sitt af mörkum. Ef erfiðleikar verða við fjármögnun þá leggist HSÍ á árar og leitar leiða til þess að endar náist saman.

Tvö verkefni á ári

Róbert segir að stefna HSÍ sé að hvert af yngri landsliðunum taki þátt í a.m.k. tveimur verkefnum á ári. Það er einnig stefna HSÍ að yngri landsliðin taki þátt í öllum stórmótum sem þau öðlast þátttökurétt á. Þess vegna hafi m.a. hiklaust verið þegið boð um að taka þátt í heimsmeistaramóti U18 ára landsliða kvenna þegar það barst í vor þótt fyrirvarinn hafi e.t.v. verið skammur.

Leikir og mót yngri landsliðanna í vor og í sumar

U20 ára karlar: Evrópumót í Portúgal, Opna Skandinavíumótið í Noregi.

U18 ára karlar: Evrópumót í Svartfjallalandi, æfingamót í Þýskalandi, tveir leikir við Færeyinga í Þórshöfn.

U17 ára karlar: Ólympíudagar Evrópuæskunnar í Slóvakíu.

U16 ára karlar: Tveir leikir við Færeyinga í Þórshöfn.

U18 ára kvenna: Heimsmeistaramót í Norður Makedóníu, tveir leikir við Færeyinga hér á landi.

U16 ára kvenna: Opna Evrópumótið í Svíþjóð, tveir leikir við Færeyinga hér heima.


Eftir að ljóst varð í fyrrasumar að U19 ára landslið kvenna keppti ekki á stórmótum U20 ára liða á þessu ári var ákveðið að beina kröftunum í B-landslið kvenna. Fór liðið m.a. í æfingaferð til Tékklands á síðasta vetri og kom nokkrum sinnum saman til æfinga hér á landi undir stjórn Hrafnhildar Óskar Skúladóttur og Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur.


- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -