Kurr á meðal Akureyringa vegna miðasöluklúðurs

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Kurr er á meðal stuðningsfólks handknattleiksliðs KA/Þórs sem hafði keypt aðgöngumiða á úrslitaleik Olísdeildar kvenna í handknattleik, á milli Fram og KA/Þórs á laugardaginn. Þeir keyptu í gær miða á leikinn í gegnum miðasölukerfið Stubb en hafa nú fengið skilaboð um að miðarnir standi þeim ekki til boða og að þeir verði endurgreiddir. Á Facebooksíðu Fram segir að miðarnir hafi farið í sölu fyrir mistök.


Stuðningsmaður KA/Þórs sem hafði samband við handbolta.is sagðist vita um tvenn hjón sem voru búin að kaupa miða á leikina, panta flugferð og hótelgistingu í Reykjavík. Í dag fengu þau og fleiri skilaboð eins og þau sem eru hér fyrir neðan.

Samkvæmt Facebook-síðu handknattleiksdeildar Fram fóru 70 miðar fyrir mistök í sölu hjá Stubbi. Hinsvegar stóð ekki til að aðgöngumiðar á leikinn færu í almenna sölu, alltént ekki fyrr en búið væri að kanna áhuga á meðal ársmiðahafa Fram sem áttu forkaupsrétt.


Vegna samkomutakmarkanna er aðeins heimilt að selja 90 áhorfendum aðgang að leiknum í íþróttahúsi Fram á laugardaginn þótt húsið rúmi í venjulegu árferði talsvert fleiri áhorfendur. Ársmiðahöfum Fram stóð til boða forgangur að miðunum og fór svo að þegar þeir höfðu nýtt rétt sinn stóð ekkert eftir af miðum, hvorki fyrir almenna stuðningsmenn Fram né KA/Þórs.


„Því miður getum við ekki tvíselt miðana en eins og fyrr hefur komið fram ganga árskorthafar og iðkendur FRAM fyrir,“ segir í tilkynningu Fram á Facebook-síðunni.


Mikil eftirvænting er fyrir leiknum enda eru KA/Þór og Fram jöfn að stigum.


Áhugvert er að lesa skilmálana vegna miðakaupa hjá Stubbi sem er smáforrit sem haldið hefur utan um sölu á þeim fáu miðum sem hægt hefur verið að selja á kappleiki leiktíðarinnar í handboltanum. Þar segir m.a.


„11. Greiðsla vegna keyptra vara og miða er óendurkræf og ekki hægt að breyta greiddum miðum.“


Ljóst er að þetta virkar ekki í báðar áttir af einhverjum sökum.
Nánar er hægt að kynna sér skilmála Stubbs hér.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -