Landin skreið úr felum og gerði gæfumuninn

Eldhressir leikmenn og starfsmenn THW Kiel eftir að sigur var í höfn á Veszprém í bronsleik Meistaradeildar Evrópu í Köln í dag. Mynd/EPA

Niklas Landin var hetja THW Kiel þegar liðið tryggði sér bronsverðlaunin í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í dag. Danski landsliðsmarkvörðurinn varði tvö vítaköst í vítakeppni sem varð að grípa til að ná fram hreinum úrslitum í viðureign THW Kiel og Veszprém í viðureigninni um þriðja sætið. Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma, 34:34. Framlengingu er sleppt í leiknum um þriðja sætið í Meistaradeildarinnar. Lokatölur að viðbættri vítakeppni, 37:35, fyrir Kiel.


Segja má að Landin hafi komið úr felum síðustu tíu mínútur leiksins þegar á mestu reið. Þá varði hann allt hvað af tók og reið síðan baggamuninn í vítakeppninni. Landin sást ekki í undanúrslitaleiknum við Barcelona í gær og lengi fram eftir viðureigninni í dag.


Leikmenn Veszprém skoruðu úr einu vítakasti af fjórum sem þeir tóku en liðsmenn Kiel úr þremur af fjórum og þar með var fimmta umferð vítakeppninnar óþörf.

Markverðinum Niklas Landin fagnað af samherjum eftir að hann varð hetja Kiel-liðsins í sigrinum á Veszprém. Mynd/EPA


Frakkinn Kentin Mahe tryggði Veszprém vítakeppni þegar hann jafnaði metin, 34:34, úr vítakasti eftir að venjulegum leiktíma var lokið. Niklas Ekberg hafði komið Kiel yfir með marki úr vítakasti 45 sekúndum áður en leiktíminn var úti.
Ungverska liðið fór illa að ráði sínu einu sinni sem oftar og svo virðist sem óheillakrákurnar elti liðið þegar kemur að úrslitahelgi Meistaradeildarinnar.

Veszprém hefur oft verið afar sigurstranglegt í keppninni en aldrei tekist að vinna Meistaradeildina. Þetta var í sjöunda sinn á síðustu níu árum sem Veszprém vinnur sér inn þátttökurétt í undanúslitum. Á þeim tíma hefur liðið þrisvar hafnaði í öðru sæti, einu sinni í þriðja sæti og þrisvar í fjórða sæti.


Veszprém var fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:14. Vængbrotið lið Kiel beit frá sér í síðari hálfleik. Varnarleikur liðsins batnaði þegar á hálfleikinn leið auk þess sem Landin varði vel á síðustu tíu mínútunum.

Mistökunum fjölgaði í sóknarleik Veszprém-liðsins þegar leið á leiktímann og þreytan tók að gera vart við sig. Kiel tókst að jafna metin, 30:30, þegar hálf ellefta mínúta var eftir. Sven Ehrig skoraði tvö mikilvæg mörk í framhaldinu og Landin varði vítakast frá Petar Nenadic þegar fimm mínútur voru eftir í stöðunni, 32:31.


Mörk THW Kiel: Mykola Bilyk 7, Miha Zarabec 6, Patrick Wiencek 6, Sven Ehrig 5, Domagoj Duvnjak 4, Niclas Ekberg 3, Rune Dahmke 2, Harald Reinkind 1.
Varin skot: Niklas Landin 9, 22%.

Mörk Veszprém: Yahia Omar 8, Andreas Nilsson 7, Kentin Mahe 6, Gasper Marguc 3, Mate Lekai 3, Rasmus Lauge 2, Jorge Maqueda 2, Peter Lukacs 1, Zoran Ilic 1, Petar Nenadic 1.
Varin skot: Rodrigo Corrales 13, 30%.


- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -