- Auglýsing -
- Auglýsing -

Langar að láta HM-drauminn rætast

Rut Arnfjörð Jónsdóttir fyrirliði landsliðsins og leikmaður KA/Þórs er besti leikmaður Olísdeildar kvenna annað árið í röð. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Það er stutt síðan við vorum saman síðast og þess vegna þekkjumst við betur og erum meiri heild en áður. Um leið þá búum við vel að því sem við unnum fyrir síðasta verkefni þótt andstæðingurinn núna sé allt annar og mikið öflugri. Þess utan þá erum við ánægðar og þakklátar fyrir að fá undanþágu til æfinga,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, ein leikreyndasta landsliðskona Íslands í samtali við handbolta.is við upphaf æfingar íslenska landsliðsins í handknattleik í Víkinni í dag.

„Við ætlum að nýta vel þessar tvær vikur sem eru framundan þangað til fyrri leikurinn verður við Slóvena,“ sagði Rut Arnfjörð sem flutti til Akureyrar á síðasta sumri en verður nú að slá upp heimili fyrir sunnan fram yfir landsleikina tvo við Slóvena í undankeppni HM sem fram fara 17. og 21. apríl.

Óli og sonurinn komu suður

„Ég hef ekkert farið norður síðan ég kom heim úr síðasta verkefni með landsliðinu fyrir meira en hálfum mánuði. Óli og strákurinn [Ólafur Gústafsson sambýlismaður Rutar og sonur þeirra] komu suður. Sonurinn verður hjá mér þangað til ég fer út til Slóveníu. Fjölskyldur okkar Óla búa báðar hér fyrir sunnan og það auðveldar okkur róðurinn. Við látum þetta ganga upp. Fyrst og síðast er ég þakklát fyrir okkar hönd í landsliðinu fyrir að fá að æfa þannig að við getum mætt eins vel undirbúnar til þeirra og kostur er,“ sagði Rut sem hefur leikið alls 97 A-landsleiki.

Allt verður að ganga upp

Rut segir að allt verði að ganga upp hjá íslenska landsliðinu til að það geti slegið Slóvena út í undankeppninni og tryggt sér sæti á HM sem fram fer í desember á Spáni.

„Ef við verðum ekki tilbúnar frá fyrstu mínútu í fyrri leiknum þá getur möguleikinn horfið eins og dögg fyrir sólu. Slóvenar eru með gott lið sem hefur tekið þátt í flestum stórmótum um langt árabil.


Við verðum að vera meðvitaðar um að Slóvenar eru með mikið betra lið en þau sem við mættum í forkeppninni í Norður-Makedóníu fyrir hálfum mánuði. Líkurnar eru ekki með okkur, það er alveg ljóst. Hinsvegar langar okkur sjálfar mjög mikið að láta drauminn rætast um að komast á stórmót.“

Andstæðingurinn er sterkur

Markmiðið er alveg skýrt þótt andstæðingurinn sé fyrirfram talinn mikið sterkari en við. Það getur allt gerst og okkar ætlan er að fara í leikinn með sem minnsta pressu á bakinu. Fyrri leikurinn verður ytra sem eykur á möguleika okkar en til þess verðum við að halda rétt á spilunum,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -