Leikmenn Nantes hjuggu strandhögg í Kielce

Alberto Entrerrios er að gera það gott í Meistaradeildinni með lið sitt Nantes. Mynd/EPA

Franska liðið Nantes tryggði sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu með frábærum sigri á pólska liðinu Vive Kielce sem Sigvaldi Björn Guðjónsson leikur með, 34:31, í síðari leiknum í 16-liða úrslitum keppninnar en leikið var í Kielce í Póllandi. Pólska liðið vann fyrri viðureignina sem fram fór í Frakklandi í síðustu viku, 25:24, og þótt sigurstranglegra að þessu sinni enda sjaldan sem Kielce tapar á heimavelli.


Nantes vann þar með samanlagt, 58:56, og er komið í átta liða úrslit í annað sinn í sögunni en árið 2018 náði liðið alla leið í úrslitaleik Meistaradeildar.


Danski markvörðurinn Emil Nielsen átti stórleik í mark Nantes á lokakafla leiksins. Hann varði þar á meðal skot Alex Dujshebaev þegar 15 sekúndur voru eftir. Þá gat Dujshebaev minnkað forskot Nantes í eitt mark. Einnig varði Nielsen úr opnum færum á síðustu mínútunum.


Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði eitt mark fyrir Vive Kielce í leiknum. Hann fékk hinsvegar ekki úr miklu að moða í hægra horninu frekar en stundum áður. Uladzislau Kulesh var markahæstur hjá Kielce með sex mörk. Valero Rivera skoraði níu fyrir Nantes og Aymeric Minne átta. Gamla brýnið, Kiril Lazarov, skoraði fjögur mörk og átti fimm stoðsendingar fyrir franska liðið.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -