- Auglýsing -
- Auglýsing -

Lékum tvo virkilega góða leiki

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals. Mynd/Valur
- Auglýsing -

„Við lékum leikina tvo við Hauka virkilega vel,“ sagði sigurglaður þjálfari Vals, Ágúst Þór Jóhannsson, í samtali við handbolta.is eftir að lið hans hafði unnið Hauka öðru sinni í úrslitakeppni Olísdeildar kvenna í handknattleik í Schenkerhöllinni í kvöld, 28:22. Valur er þar með kominn í undanúrslit en Haukar eru úr leik.


„Fyrir leikina við Hauka sagði ég að vegna þess að Haukar hafi spilað vel á leiktíðinni þá væri það okkur nauðsynlegt að sýna okkar bestu hliðar til að geta slegið þá út. Við höfum svo sannarlega gert það. Varnarleikurinn hefur verið mjög góður og markvarslan að sama skapi líka. Eins gengu hraðaupphlaupin vel og eins önnur og þriðja bylgjan. Liðsheildin var góð. Það er óhætt að segja að það sé virkilega góður liðsheildarbragur á leik liðsins,“ sagði Ágúst Þór sem notaði tækifærið og sendi fjölmiðlum tóninn.

„Það er eitt sem þið fjölmiðlamenn minnist aldrei á og það eru allir ungu leikmennirnir sem við teflum fram í Valsliðinu. Við erum sennilega með flesta unga leikmenn af öllum liðum og höfum verið með síðustu ár. Í dag voru sjö eða átta leikmenn úr þriðja flokki að taka þátt í leiknum. Við hikum ekki við að nota yngri leikmenn. Þær standa sig virkilega vel. Við erum með virkilega góða blöndu af yngri og eldri reyndari leikmönnum,“ sagði Ágúst Þór sem mætir Fram í undanúrslitum sem hefjast eftir viku.


„Framundan er enn ein rimman við Fram. Við verðum að eiga jafngóða leiki og gegnum Haukum og helst ennþá betri til að eiga einhvern möguleika til að stríða Fram-liðinu,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -