Lilja komin í undanúrslit með Lugi

Lilja Ágústsdóttir leikmaður Lugi í Svíþjóð. Mynd/EHF

Lilja Ágústsdóttir og félagar hennar í sænska úrvalsdeildarliðinu Lugi komust í dag í undanúrslit í úrslitakeppninni um sænska meistaratitilinn í handknattleik. Lugi lagði Kungälvs HK, 26:25, í þriðju viðureign liðanna í átta liða úrslitum.


Lugi hefur þar með þrjá vinninga gegn engum hjá Kungälvs-liðinu sem nú er komið í sumarleyfi. Lilja og félagar halda hinsvegar áfram keppni seint í þessum mánuði þegar undanúrslit hefjast.


Lugi vann tvær af þremur viðureignum liðanna á heimavelli Kungälvs sem gerir árangur liðsins enn athyglisverðari.


Lilja tók þátt síðasta stundarfjórðunginn í leiknum í dag en var ekki á meðal markaskorara að þessu sinni.

Systir Lilju, Ásdís Þóra, bíður þess að mega hefja keppni eftir að hafa slitið krossband fyrir um ári. Ásdís er einnig samningsbundin Lugi.


Tvær af fjórum rimmum átta liða úrslitanna hafa ekki verið leiddar til lykta en verða það væntanlega áður en hlé verður gert vegna landsleikja í undankeppni EM kvenna síðar í þessum mánuði. Óljóst er hverjum Lugi mætir í undanúrslitum.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -