- Auglýsing -
- Auglýsing -

Lokaleikur upp á stoltið

Viktor Gísli Hallgrímsson kominn fram á móti Frakkanum Valentin Porte í leiknum á HM í gær. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Þetta var geggjaður leikur hjá öllu liðinu gegn Frökkum og það hefði verið gaman að fá bæði stigin,“ sagði markvörðurinn ungi, Viktor Gísli Hallgrímsson, þegar handbolti.is hitti hann stuttlega að máli við hótel íslenska landsliðsins nærri Giza-sléttunni í Kaíró dag.


Viktor Gísli kom inn á leikvöllinn eftir um stundarfjórðung gegn Frökkum í gær og varði vel, byrjaði t.d. á verja vítakast sem hann segir að hafa létt sér róðurinn við að komast inn í leikinn eftir að hafa byrjað á meðal varamanna. „Vítið hjálpaði mikið, maður fær aukið sjálfstraust við að taka eitt víti. Hinsvegar hefur það oftast verið hjá okkur markvörðunum í þessu móti að það hefur verið betra að koma inn eftir að leikurinn er hafinn en að byrja. Tölfræðin sýnir það. Vanalega er betra að byrja.“

Viktor Gísli segir varnarleikinn hafa verið mjög góðan hjá íslenska landsliðinu sem gerir markvörðunum oft auðveldara fyrir. „Það koma oft skot úr opnum færum sem eru mjög erfið. Þegar vörnin er leikin á þann hátt sem við gerum þá verða varnarmenn að velja og hafna og þá fá sóknarmenn andstæðingsins stundum opin færi. Maður verður að taka því,“ sagði Viktor Gísli léttur í bragði.
 
Viktor Gísli segir aðspurður hvort helstu varnarmenn búi sig undir leiki með því að leggja línurnar með markvörðunum svo ekki vera. Þeir hafi talað svolítið í upphafi undirbúningsins fyrir HM en eftir að í mótið var komið vinni markverðirnir þrír mest saman, skiptist á skoðunum og beri saman bækur sínar.

Annað kvöld leikur íslenska landsliðið sinn síðasta leik á HM að þessu sinni. Viktor Gísli segir þá viðureign verða upp á stoltið, ekkert annað. Héðan komist íslenska landsliðið ekki lengra í keppninni. „Síðasti leikur á HM í Egyptalandi. Væntanlega kemur maður ekki hingað aftur á næstunni. Leika upp á stoltið og ná einum sigri gegn Noregi. Það væri skemmtilegt að setja strik í reikning Norðmanna. Þeir hafa á að skipa besta eða að minnsta kosti einu besta liði heims um þessar mundir. Sander Sagosen er sá besti en annars hafa Norðmenn úr stórum hópi leikmanna að ráða, svipað og Frakkar. En við viljum sýna hvað við getum. Leikurinn verður hraður og skemmtilegur,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, einn þriggja markvarða íslenska landsliðsins í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í Kaíró í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -