Mættur til starfa hjá Fredrikstad Ballklubb

Elías Már Halldórsson fyrir miðju ásamt forvígsfólki Fredrikstad Ballklubb. Mynd/Fredrikstad Ballklubb

Sumarleyfið verður í styttra lagi hjá handknattleiksþjálfaranum Elíasi Má Halldórssyni. Hann lauk störfum hjá HK í lok maí og var nokkrum dögum síðar mættur til starfa hjá Fredrikstad Ballklubb en kvennalið félagsins leikur í norsku úrvalsdeildinni. Elías Már tók til óspilltra málanna sem þjálfari í byrjun júní og eru æfingar þegar hafnar.


Reyndar gekk það ekki þrautalaust fyrir hjá Elíasi Má að komast inn í Noreg. Honum var í fyrstu vísað frá landinu og heim til Íslands. Lausn fannst og Elías Már mætti á ný en strangar reglur hafa gilt um komu fólks til Noregs síðasta árið.

Elías Már sagði við handbolta.is áður en hann hélt til Noregs að forsvarsmenn Fredrikstad Ballklubb hafi óskað eftir að hann hæfi störf í byrjun júní. Kórónuveiran setti strik í reikninginn í Noregi eins og annarstaðar og keppni var hætt eftir miðjan janúar. Af þeim sökum var það ósk forráðamanna félagsins að Elías kæmi fyrr út og hæfi æfingar til þess að vinna upp eitthvað af þeim tíma sem tapast hefur síðustu mánuði.


Tveir íslenskir þjálfarar verða í norsku úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili en auk Elíasar þjálfar Axel Stefánsson lið Storhamar. Hann tekur við 1. júlí. Svo skemmtilega vill til að Elías og Axel voru samstarfsmenn með íslenska kvennalandsliðið um nokkurt skeið þegar sá síðarnefndi var landsliðsþjálfari þá var Elías Már hægri hönd Axels.

a>
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -