- Auglýsing -
- Auglýsing -

Magnað að taka þátt í að vinna þrennuna

Íslendingarnir hjá Elverum, Orri Freyr Þorkelsson t.v. og Aron Dagur Pálsson, ánægðir með afrakstur tímabilsins. Mynd/Magnus Stenseth, Elverum Handball
- Auglýsing -

„Ég hef tvisvar fengið silfur í úrslitakeppni handboltans heima á Íslandi og því var ótrúlega gaman að fá gullverðlaunapening eftir úrslitakeppnina í Noregi um helgina,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson leikmaður Elverum og landsliðsmaður þegar handbolti.is sló á símann til hans í gær.


Orri Freyr gekk til liðs við, Elverum, stórveldi norska karlahandboltans, fyrir ári. Elverum varð um helgina fyrsta liðið í 11 ár til þess að verða norskur meistari, bikarmeistari og vinna úrslitakeppnin á sama tímabilinu. „Það var magnað að taka þátt í að vinna þrennuna á fyrsta ári í nýju landi,“ sagði Orri Freyr hress og kátur.

Auk Orra Freys lék annar Íslendingur, Aron Dagur Pálsson, með Elverum á síðari hluta tímabilsins á skammtímasamningi sem nú er á enda.

Orri Freyr Þorkelsson og Aron Dagur Pálsson fyrir miðri mynd, Börge Lund þjálfari Elverum með hljóðnemann í höndum á sviðinu. Mynd/Magnus Stenseth. Elverum Handball

Mikið meira álag

„Tímabilið hefur lærdóms- og viðburðaríkt. Breyting hefur verið talsverð fyrir mig að fara frá Haukum og til Elverum. Í fyrsta lagi er talsvert stökk að flytja að heiman og standa á eigin fótum í öðru landi. Til viðbótar hafa leikirnir verið mikið fleiri og álagið þar af leiðandi meira. Elverum tók þátt í öllum mótum í Noregi og var með í Meistaradeildinni í vetur og náði alla leið inn í 16-liða úrslit þar sem við mættum PSG. Með landsleikjum þá eru leikirnir á tímabili á milli 70 og 80. Semsagt mjög langt keppnistímabil,“ segir Orri Freyr sem kann vel við sig hjá félaginu.

Flaggskip í íþróttalífinu

Elverum er ekki mjög fjölmennur bær og handknattleikslið bæjarins er flaggskip íþróttalífsins. Það hefur unnið a.m.k. einn bikar ári síðasta hálfan annan áratuginn. „Það fylgjast allir með handboltanum hér og ekki að ósekju að Elverum er kallaður handboltabærinn.


Ástæðan fyrir frábærum árangri liðsins er fyrst og fremst sú að afar duglegt fólk stendur á bak við félagið og haldið starfinu gangandi auk öflugra bakhjarla,“ sagði Orri Freyr og bætir við að talsverð hátíðarhöld hafi verið í bænum eftir að síðustu sigurlaunin voru komin í hús um síðustu helgi.

Stuðningsmenn og bæjarbúar kátir með afrakstur Elverum-liðsins á leiktíðinni. Mynd/Magnus Stenseth, Elverum Handball


„Það var mikið líf í bænum í gær [sunnudag] þar sem mjög margir söfnuðust saman til að taka á móti okkur. Það var mikið stuð á öllum, jafnt leikmönnum, starfsmönnum og íbúum sem glöddust með okkur,“ sagði Orri Freyr.

Skýrt hlutverk

Orri Freyr segir að hlutverk sitt hafi verið nokkuð skýrt frá fyrsta degi. Hann hafi að mestu leikið í leikjunum deildinni og bikarnum í Noregi en var minna með í Meistaradeildinni. Hópurinn er stór og álaginu dreift.

„Vissulega hefði ég vilja taka meira þátt í mörgum leikjum í Meistaradeildinni en það er ekki í mínum höndum. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að ég hef vaxið af reynslu og hef notið þess að nýta þau tækifæri sem ég fékk með liðinu í vetur á hvaða vettvangi sem það hefur verið.

Ómetanlegt að fara á EM

Félagið Elverum var stofnað 1946. Sigurganga þess í norsku handknattleik hófst ekki að miklu marki fyrr en komið var á inn á 21. öldina. Elverum hefur sex sinnum orðið norskur meistari í karlaflokki frá 2013, ellefu sinnum unnið úrslitakeppnina og fimm sinnum staðið uppi sem sigurvegari í bikarkeppninni auk þess sem lið félagsins hlaut silfurverðlaun í bikarkeppninni utandyra 1962.
Íbúar í Elverum er liðlega 20 þúsund. Bærinn er ekki langt frá Hamri og Kongsvinger og tilheyrir svokölluðu innlandet sem er hlut af Østerdalen.

Stærsti skólinn er að hafa fengið tækifæri til þess að fara með landsliðinu á EM í Ungverjalandi í janúar. Það var ómetanleg reynsla. Ég er betri leikmaður en ég var fyrir ári þegar ég fór út til Noregs.


Ég er spenntur fyrir næsta keppnistímabili og er viss um að mínúturnar í Evrópuleikjunum verða fleiri en á síðasta tímabili,“ sagði Hafnfirðingurinn og Haukamaður ákveðinn.

Heldur áfram námi

Orri Freyr er atvinnumaður í handknattleik hjá félaginu. Hann segir það vera mikil viðbrigði að geta eingöngu einbeitt sér að handboltanum. „Það eina sem maður hugsar um er handbolti og æfingar. Til þess að brjóta upp lífið þá hélt ég áfram að leggja stund á íþróttafræði í HR. Reyndar dró ég aðeins úr námshraðanum en er að ljúka við lokaritgerðina á þessari önn. Eftir hana á ég nokkra áfanga eftir sem lýk við með handboltanum.“

Meiri samkeppni á næsta tímabili

Elverum fær meiri samkeppni á næsta tímabili þegar forráðamenn Þrándheimsliðsins Kolstad blása til sóknar með fríðu föruneyti. Þeir hafa safnað að sér norskum landsliðsmönnum, fyrrverandi landsliðsþjálfara auk tveggja íslenskra landsliðsmanna, Janusar Daða Smárasonar og Sigvalda Björns Guðjónssonar. Stefnan er að velta Elverum úr sessi og búa til á næstu árum eitt allra besta félagslið í evrópskum karlahandknattleik. Fleiri stórstjörnur eru væntanlegar sumarið 2023 þar á meðal Sander Sagosen, fremsti handknattleikskarl Noregs um þessar mundir.


Orri Freyr segir það verða spennandi að fást við Kolstad. Ekki síst verði gaman að mæta félögum sínum úr íslenska landsliðinu. Elverum hafi á að skipa mjög góðu liði sem verði tilbúið í harða keppni. „Það verður gaman að fást við Kolstad á næst tímabilil. Keppnin í deildinni mun harðna og verða skemmtilegri,” sagði Orri Freyr Þorkelsson handknattleiksmaður hjá Elverum í Noregi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -