- Auglýsing -
- Auglýsing -

Markmiðið er í höfn – bíður eftir næsta andstæðingi

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV og leikmenn liðsins gátu fagnað í leikslok. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Markmiðið náðist og með það erum við ánægð þótt spilamennskan hafi ekki verið nógu góð að mínu mati,“ sagði Sigurður Bragason, þjálfari kvennaliðs ÍBV, í samtali við handbolta.is í dag eftir að ÍBV tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik. ÍBV vann gríska liðið AEP Panorama í tvígang, samanlagt 55:44, í tveimur leikjum í Vestmannaeyjum, þeim síðari í dag.


„Við erum með mikið betra lið en Grikkirnir og okkur tókst að sýna það þrátt fyrir að leikur okkar hefði mátt vera betri. En á móti kemur að það hefur verið mikið álag á leikmönnum og í þeirri stöðu getur allt gerst. Það er hægt að klúðra góðri stöðu ef einbeitingin er ekki fyrir hendi,“ sagði Sigurður sem ætlar að gefa leikmönnum sínum viku frí frá skipulögðum æfingum eftir þá törn sem er að baki.

Yngri stúlkur fengu að spreyta sig

„Annað jákvætt er síðasta korterið þá gat ég gefið mörgum ungum stelpum tækifæri, meðal annars einni sem er ekki nema 15 ára, Herdís Eiríksdóttir heitir hún. Það var fullt af flottum stelpum í leiknum í dag sem maður er að reyna að gefa tækifæri jafnt og þétt,“ sagði Sigurður.

Ekki fleiri grísk lið

Dregið verður í 16-liða úrslit eftir helgi og eftir að hafa leikið í tvígang við grísk lið segist Sigurður vera búinn að fullvissa sig um að ekki er nokkur möguleiki að dragast gegn grísku liði í næstu umferð. „En það verður kannski tyrkneskt lið. Það væri nú alveg til þess að toppa þátttöku okkar í Evrópukeppninni á tímabilinu,“ sagði Sigurður Bragason þjálfari ÍBV léttur í lund.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -