- Auglýsing -
- Auglýsing -

Meistarar í kröppum dansi

Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Skjern. Mynd/Skjern
- Auglýsing -

Danmerkurmeistarar Aalborg Håndbold lentu í kröppum dansi í kvöld þegar þeir sóttu Fredericia Håndboldklub heim í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla. Átta mínútum fyrir leikslok voru heimamenn tveimur mörkum yfir, 30:28, eftir að hafa verið með frumkvæðið um skeið í síðari hálfleik. Virtist heimaliðið hafa byr í seglum en eins og hendi væri veifað kom annað á daginn.

Álaborgarliðinu tókst að snúa við taflinu á lokamínútunum og knýja fram þriggja marka sigur, 36:33. Þar með er Aalborg áfram efst í deildinni og með fullt hús stiga, 14 stig, þegar sjö umferðir eru að baki.

Þetta var um leið tíundi sigur Aalborg á keppnistímabilinu og hefur liðið ekki tapað leik, hvorki í dönsku úrvalsdeildinni né í Meistaradeild Evrópu á leiktíðinni. Arnór Atlason, fyrrverandi landsliðsmaður og einn silfurdrengjanna frá Peking, er aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold.

Elvar Örn Jónsson var besti maður Skjern þegar liðið vann Lemvig, 29:26, á heimavelli í kvöld. Staðan var jöfn í hálfleik, 14:14.

Elvar skoraði sex mörk í níu tilraunum og var markahæsti leikmaður liðsins. Eftir erfiða byrjun í haust þá hefur Skjern sótt í sig veðrið upp á síðkastið og er nú í sjötta sæti með sjö stig að loknum sex leikjum.

Óðinn Þór Ríkharðsson tókst ekki að skora þegar Team Tvis Holstebro vann Bjerringbro/Silkeborg, 33:28, á útivelli í kvöld. TTH var með yfirburði í leiknum frá upphafi til enda. TTH er í þriðja sæti deildarinnar með átta stig.

Staðan í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -