Meistarar KA/Þórs fá ÍBV í heimsókn í fyrstu umferð

Leikmenn KA/Þórs og ÍBV mætast í upphafsumferð Olísdeildar kvenna í haust. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net

Stórleikur verður strax í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna laugardaginn 18. september þegar flautað verður til leiks samkvæmt frumdrögum að niðurröðun leikja í deildinni sem Handknattleikssamband Íslands hefur sent frá sér.


Íslands- og deildarmeistarar KA/Þórs mæta ÍBV í KA-heimilinu í fyrstu umferð en liðin áttust við í eftirminnilegri rimmu í undanúrslitum Olísdeildarinnar í vor sem lauk með sigri KA/Þórs í framlengdum oddaleik.
Íslandsmeistararnir sækja Stjörnuna heim í annari umferð deildarinnar í TM-höllina í Garðabæ laugardaginn 25. september. Liðin eiga sér einnig eftirminnilega sögu frá leikjum nýliðinnar leiktíðar en þau þurftu m.a. að eigast við í þrígang í Olísdeildinni í vetur sem leið.


Nýliðar Aftureldingar í Olísdeild kvenna ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrstu umferð Olísdeildar því þeir fá Val í heimsókn að Varmá laugardaginn 18. september.


Leikir 1. umferðar Olísdeildar kvenna laugardaginn 18. september:
Afturelding – Valur.
Fram – Stjarnan
Haukar – HK
KA/Þór – ÍBV

2.umferð laugardaginn 25. september:
ÍBV – Afturelding
Stjarnan – KA/Þór
HK – Valur
Haukar – Fram


Eftir aðra umferð verður gert hlé á keppni í Olísdeild kvenna til 16. október vegna úrslitahelgar Coca Cola-bikarsins 29. september til 3. október og sökum leikja íslenska landsliðsins í undankeppni EM sem ráðgerðir eru 6. og 9. okótber.


Tíu umferðum af 21 verður lokið 11. desember þegar gert verður hlé til 8. janúar. Tvær umferðir fara fram í desember vegna þess að íslenska landsliðið verður ekki með á heimsmeistaramótinu sem fram fer í desember á Spáni.


Ráðgert er samkvæmt frumdrögum HSÍ að keppni í Olísdeild kvenna að lokaumferðin fari fram laugardaginn 9. apríl, viku fyrir páskahelgina. Meðal leikja í lokaumferðinnni verður viðureign Vals og KA/Þórs, liðanna sem léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í vor. Leikurinn fer fram í Origohöllinni á Hlíðarenda þar sem leikmenn KA/Þórs tóku við Íslandsbikarnum 6. júní.


Hægt er að sjá frumdrögin að leikjaniðurröðun Olísdeildar kvenna á næsta keppnistímabili með því að smella hér.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -