- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mikill munur á Montpellier og Kristianstad

Ólafur Andrés Guðmundsson leikur í Frakklandi. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Munurinn er mikill á milli Montpellier og litla Kristianstad. Það er þroskandi að breyta til og koma inn í allt öðruvísi félag,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, handknattleiksmaður þegar handbolti.is hitti hann að máli í vikunni á æfingu íslenska landsliðsins.


Ólafur Andrés kvaddi sænska liðið IFK Kristinastad í sumar eftir langa veru og gekk til liðs við Montpellier í Frakklandi. Montpellier hafnaði í öðru sæti í frönsku 1. deildinni á síðustu leiktíð og leikur í Meistaradeild Evrópu á yfirstandandi keppnistímabili.

Sami þjálfari frá 1994

Ólafur segir mikla festu ríkja í öllu hjá félaginu sem m.a. markast af því að Patrice Canayer hefur þjálfað liðið frá 1994. Canayer stendur á sextugu.

„Það er virkilega skemmtilegt að fá að vera hluti af þeirri heild og þeim hefðum sem félag með svo glæsta sögu hefur byggt upp,“ sagði Ólafur sem skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í sumar.


Montpellier er í efsta sæti A-riðils Meistaradeildar Evrópu þegar sex umferðir eru að baki. Hinsvegar er það rétt fyrir ofan miðja frönsku 1. deildinni eftir erfiða byrjun. Ólafur segir þetta eiga sína skýringar.

Vantar jafnvægi

„Gengi okkar í frönsku deildinni hefur verið æði misjafnt. Kannski er ein ástæðan sú að margir leikmenn liðsins tóku þátt í Ólympíuleikunum í sumar með franska landsliðinu. Til viðbótar eru nokkrir nýir leikmenn. Af þessum ástæðum hefur vantað meira jafnvægi í leik okkar. Stundum höfum við leikið frábærlega en á milli hefur okkur ekki tekist að leika eins og best verður á kosið. Fyrir vikið hefur okkur verið refsað í mjög erfiðri deild í Frakklandi og tapað stigum gegn liðum sem við áttum að vinna.

Viljum vera oftar nær okkar besta

Á móti kemur að lífið hefur leikið við okkur í Meistaradeild Evrópu. Ég vænti þess að meira jafnvægi komist á leik okkar þegar á tímabilið líður og menn verða búnir að læra betur hver inn á annan. Við gerum þá kröfu okkar að vera nær okkar besta í fleiri leikjum þegar á tímabilið líður,“ sagði Ólafur.

Breytt hlutverk

Hlutverk Ólafs hefur sannarlega breyst við að koma inn í stærra lið sem hefur yfir að ráða mun fleiri góðum leikmönnum en IFK Kristianstad. Ólafur segir að mjög sé róterað með leikmannahópinn á milli leikja. Þar af leiðandi sé hlutverk hans afar mismunandi frá einum leik til annars.

Er að vinna sig til baka

„Ég leik stórt hlutverk í vörninni og tek þátt í hraðaupphlaupum þegar við vinnum boltann. Eins hef ég aðeins leikið sem vinstri skytta og miðjumaður. Í byrjun tímabilsins var hlutverk mitt nokkuð stórt en síðan varð ég fyrir smá meiðslum og varð að halda mig til hlés um tíma. Eftir að ég kom til baka aftur hef ég verið að vinna mig inn í fyrri hlutverk á nýjan leik. Vegna þess að leikmannahópurinn er stór þá er það ef til vill hægara sagt en gert.

Ólafur Andrés Guðmundsson stöðvar Dean Bombac liðsmann Pick Szeged í leik Montpellier og Pick Szeged í leik í Meistaradeildinni. Mynd/EPA

2 til 3 leikir á viku

Fyrir hefur komið að ég hef lítið verið með en þess á milli hef ég verið í stærra hlutverki í öðrum leikjum. Samkeppnin er mikil og maður verður stöðugt að vera á tánum enda eru tveir til þrír leikir í hverri viku,“ sagði Ólafur sem viðurkennir að það hafi gengið misjafnlega hjá sér sem er ekkert óeðlilegt.

Er að læra inn á nýtt hlutverk

„Ég viðurkenni að það hafa komið erfiðir tímar vegna þess að ég er nýr, er að læra inn á hlutverk mín í umhverfi þar sem samkeppnin er mikil. Maður verður bara að vera klár í slaginn hvenær sem er. Það er skemmtilegt að fá tækifæri hjá svona stóru liði sem gerir ekkert annað en að þroska mann. Ég held bara áfram að gera mitt eins vel og ég get,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður og leikmaður Montpellier í Frakklandi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -