- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mikilvægasti leikur tímabilsins er framundan

Álaborgarliðið með silfurverðlaun sín eftir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni í gær. Arnór Atlason er lengst t.v. í efri röð. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Auðvitað var þetta svakalegt högg í gær, en við verðum líka gera okkur grein fyrir því að þetta Barca lið vann 60 leiki af 60 á þessu tímabili. Þannig að eftir einhverja daga eigum við eftir að líta til baka og vera ótrúlega stoltir af þessu tímabili,“ sagði Arnór Atlason aðstoðarþjálfari danska meistaraliðsins Aalborg Håndbold við handbolta.is í morgun.


Arnór og félagar eru á heimleið frá Köln þar sem þeir léku til úrslita í Meistaradeild Evrópu í gær en biðu lægri hlut fyrir hinu ógnarsterka liði Barcelona, 36:23.

Meistaradeildarsæti í húfi

Framundan er oddaleikur á heimavelli um danska meistaratitilinn á miðvikudagskvöldið. Úrslit leiksins ráða miklu fyrir næsta tímabil. Sigur í oddaleiknum tryggir sæti í Meistaradeild Evrópu á leiktíðinni 2021/2022. Um næstu helgi tekur Aalborg þátt í úrslitahelgi dönsku bikarkeppninnar.


Tapið stóra fyrir Barcelona er höggið sem Arnór vísar til að ofan. Aalborg-liðið átt magnað tímabil í Meistaradeildinni og vann m.a. ríkasta handknatttleikslið heims, Paris SG, í undanúrslitum á laugardaginn eftir að hafa rutt fleiri liðum úr vegi.

Getum litið stoltir um öxl

„Við getum litið til baka eftir nokkra daga og verið ótrúlega stoltir af þessu tímabili. Við slógum út Porto, Flensburg og PSG á leiðinni í úrslitin, auk þess að hafa unnið lið eins og Nantes og Veszprem í riðlinum er auðvitað ævintýralegt og eitthvað sem við erum mjög stoltir af,“ sagði Arnór ennfremur en hann hefur verið hægri hönd þjálfarans Stefan Madsen frá 2018.

Stefan Madsen þjálfari Aalborg fagnar með leikmönnum sínum sigri á PSG í undanúrslitum Meistaradeildar í dag. Arnór Atlason hylur andlit sitt fyrir aftan Madsen. Mynd/EPA


Enginn tími gefst hjá leikmönnum og þjálfurum að slaka á eftir helgina því framundan er einn mikilvægasti ef ekki mikilvægasti leikur keppnistímabilsins sem mun ráða miklu um framhaldið.

Oddaleikur á miðvikdagskvöld

„Ótrúlegt en satt þá er bara oddaleikur um titillinn við BSH [Bjerringbro/Silkeborg] á miðvikudaginn sem við ætlum að sjálfsögðu að vinna. Sem betur fer höfum við verið mjög góðir við að skilja á milli keppna, það er, getað einbeitt okkur að hverju verkefni fyrir sig. Nú er Meistaradeildin búin og fyrir dyrum stendur að tryggja okkur meistaratitilinn á heimavelli,“ sagði Arnór galvaskur að vanda.

Ótrúlega staða

„Staðan er hreint ótrúleg hjá okkur í lok keppnistímabilsins að leika um þrjá titla á átta dögum. Við fengum silfur í fyrstu keppninni en aðalleikurinn af öllum þessum verður á miðvikudaginn. Hann er í raun sá sem skiptir öllu máli,“ sagði Arnór Atlason aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold við handbolta.is í morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -