- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mikilvægur áfangi eftir tvö erfið ár

Árni Bragi Eyjólfsson kom eins stormsveipur inn í Olísdeildina eftir veru í Danmörku. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Tímabilið hefur verið mjög gott og mér gekk hreint frábærlega á seinni hluta þess,“ sagði Árni Bragi Eyjólfsson, leikmaður KA og markakóngur Olísdeildar karla keppnistímabilið 2020/2021 í handknattleik, þegar handbolti.is hitti hann að máli og spurði út í keppnistímabilið. Árni Bragi skoraði 163 mörk, fimm fleiri en næsti maður, Hákon Daði Styrmisson, ÍBV.


„Ég finn mig afar vel þegar þétt er spilað og minna er æft,“ sagði Árni Bragi glaður í bragði og bætti við.

Hef notið trausts

„Þegar stutt er á milli leikja og vel gengur þá mætir maður fullur sjálfstrausts í næst leik. Til viðbótar þá hefur ég notið mikils trausts hjá þjálfutunum hjá KA og samherjum sem hefur hjálpað til. Í nokkrum leikjum byrjaði ég illa en menn sýndu mér þolinmæði, þeir vissu að ég færi í gang fyrr en síðar sem raun varð á.

Mér hefur ekki liðið eins vel hjá nokkru lið um langt árabil og á þessu keppnistímabili með KA,“ sagði Árni Bragi og bætti við að enginn vafi væri á að núverandi tímabil væri það besta á ferlinum til þessa.

Árni Bragi kom til KA á síðasta sumri eftir að hafa reynt fyrir sér hjá Kolding í Danmörku leiktíðina 2019/2020. Í Danmörku átti hann á brattann að sækja og eins veturinn áður 2018/2019 með Aftureldingu. Til viðbótar þá varð keppnistímabilið í Danmörku endasleppt eins og annarstaðar vegna veirunnar.

Gekk ekki upp í Danmörku

„Ég er glaður og stoltur yfir að hafa komið með þessum hætti inn í deildina eftir tvö erfið ár. Í Danmörku gekk mér engan veginn eins og ég ætlaði sem endaði með að ég kom heim þegar kóvídið fór gang þótt það hafi alls ekki verið á áætluninni.“

Hárrétt skref að koma í KA

Árni Bragi segir að eftir á að hyggja hafi hann stigið hárrétt skref með því að ganga til liðs við KA eftir erfiðan tíma. „Utanumhaldið hjá KA er til fyrirmyndar. Segja má að það sé gert allt fyrir mann sem beðið er um. Þar með getur maður ekki annað en þakkað fyrir sig með því að skilja allt eftir inni á leikvellinum í hvert sinn.“


Þrátt fyrir allt þá flytur Árni Bragi sig um set eftir keppnistímabilið og flytur aftur til Aftureldingar í Mosfellsbæ í sumar.

Stoltur yfir árangrinum

„Inn í þá ákvörðun komu ýmsir þættir. Mér líður ágætlega með þá ákvörðun, ekki síst vegna þess að þegar ég kveð KA þá hef ég skilið eitthvað eftir hjá félaginu frekar en ef ég væri að fara suður með skottið á milli lappanna. Ég er stoltur yfir að hafa átt þátt í því með mörgum öðrum að koma KA á þann stall þar sem það á heima á.“


Árni Bragi segir að það sé sér mikilvægt að ná þeim áfanga að verða markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar.

„Þegar ég var hjá Aftureldingu var ég oft markahæsti leikmaður liðsins. Á yngri árum velti maður sér meira upp því hvar maður var í röðinni á lista þeirra markahæstu í deildinni. Síðustu vikur vissi ég að ég ætti möguleika á að verða markahæstur en reyndi að leiða hugann frá þeirri staðreynd. Ég er stoltur af þessum áfanga á ferlinum og að hann hafi um leið skilað KA inn í úrslitakeppnina. Þar sem liðið á heima,“ sagði Árni Bragi Eyjólfsson, markakóngur Olísdeildar karla í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -