- Auglýsing -

Mismunandi reglur gilda fyrir áhorfendur á EM

Mynd/EPA

Evrópumeistaramótið í handknattleik karla hefst í Ungverlandi og í Slóvakíu 13. janúar. Talsverður hópur Íslendinga hefur sett stefnuna á að fylgja íslenska landsliðinu eftir en leikir þess verða 14., 16. og 18. janúar í glæsilegri liðlega 20 þúsund manna íþróttahöll í Búdapest í Ungverlandi.


Kórónuveiran hefur ekki látið Ungverja og Slóvaka í friði fremur en íbúa annarra ríkja í heiminum. Ástandið er misjafnlega slæmt í þessum grannríkjum um þessar mundir af ýmsum ástæðum sem ekki verða hér raktar.

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, greindi frá því í gær hvað væntanlegir áhorfendur sem hyggjast sækja leiki mótsins verða að hafa í huga eins og staðan er í löndunum tveimur um þessar mundir. Tekið er fram að breytingar gera orðið á reglum í báðum löndum áður en keppnin hefst og eins jafnvel eftir að keppnin verður hafin.


Í tilkynningu EHF er þetta helst:

Eins og sakir standa er ekki gert ráð fyrir að fjöldatakmarkanir verði á leikjum sem fram fara í Ungverjalandi á Evrópumeistaramótinu. Áhorfendur verða að geta uppfyllt eitthvað af eftirfarandi skilyrðum til þess að fá aðgang að leikjum.

A. Að geta sannað með vottorði að hafa fengið veiruna og læknast af henni.
B. Geta framvísað bólusetningarvottorð.
C. Eða hafa undir höndum staðfesta neikvæða niðurstöðu úr PCR prófi sem er ekki eldra en 72 klukkustunda gamalt.
Til viðbótar verða allir áhorfendur sex ára og eldri að bera grímur sem hylja nef og munn.

Í Slóveníu er og hefur smit verið mun útbreiddara á síðustu vikum en í Ungverjalandi. Þar af leiðandi eru reglur í stöðugri endurskoðun. Ljóst er þó að aðeins fullbólusettum verði heimilt að mæta á leiki sem fram fara í Kosice og Bratislava. Reikna má með að áhorfendafjöldi á leikjum verði verulega takmarkaður.

Hversu vel sem íslenska landsliðinu gengur á EM þá mun það ekki leika í Slóvakíu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -