Mjög feginn að hafa unnið

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu fyrir miðri mynd. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

„Ég er mjög feginn að hafa unnið þennan leikinn því hann var gríðarlega mikilvægur auk þess sem Víkingar gerðu viðureignina enn erfiðari meðal annars með komu Hamza Kablouti sem breytir Víkingsliðinu mjög mikið. Auk þess sem hann hafði skotleyfi og vildi sanna sig. Sú staðreynd að okkur tókst að vinna annan leik okkar í röð segir eitt og annað um Gróttuliðið,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu eftir sigur á Víkingi, 26:22, í viðureign liðanna í Olísdeild karla í handknatleik í gærkvöld.

Erum að taka framförum

„Það er líka mjög mikilvægt fyrir okkur að vinna tvo leiki í röð. Á síðasta ári unnum til dæmis svipaðan leik og þennan en fórum svo norður og töpuðum fyrir Þór. Við höfum ekkert gleymt því. Við erum greinilega að taka einhverjum framförum. Nú höfum við náð að tengja saman tvo sigurleiki,“ sagði Arnar Daði og átti við að í leiknum á undan vann Grótta liðsmenn Stjörnunnar.

Mikil leikjatörn framundan

„Framundan er mikil leikjatörn með sjö leikjum á 26 dögum og HSÍ vill að við leikum átta leiki á 26 dögum. Ég vona að það verði ekki að veruleika því við erum ekki að nota marga leikmenn um þessar mundir meðal annars vegna meiðsla, sóttkvía og einangrunar. Ég vona að sjö leikir á 26 dögum verði látnir duga og viðureignin við HK sem var frestað um daginn verði sett á dagskrá eftir áramót,“ sagði Arnar Daði ennfremur.

Sjálfstraustið vex

Grótta lenti tveimur mörkum undir í tvígang í leiknum við Víkinga í gær. Spurður hvað hafi orðið þess valdandi að Grótta sneri við blaðinu sagði Arnar Daði það ekki vera alveg ljóst í sínum huga, svo skömmu eftir leik. „Við breyttum yfir í 5/1 vörn sem við höfum ekki æft mikið. Þess utan varði Einar Baldvin mjög vel í markinu. Annað er að sóknarleikurinn gekk vel hjá okkur. Þegar svo er þá styður það við menn í vörninni, sjálfstraustið vex.

Við erum kannski ekki besta lið deildarinnar en á meðan við höldum okkur við það sem við gerum best þá erum við erfiðir viðureignar. Að sama skapi getum við dottið niður á lágt plan ef við víkjum af leið,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu en lið hans er nú komið fimm stigum frá neðstu liðunum tveimur, HK og Víkingi.

Staðan í Olísdeild karla.

- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -