- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mjög mikið að gerast hjá þeim

Mikið mun reyna á íslensku varnarmennina Ými Örn Gíslason og Arnar Frey Arnarsson í dag í glímu við leikstjórnandann Andy Schmid. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Arnar Freyr Arnarsson og Ýmir Örn Gíslason hafa náð afar vel saman í hjarta íslensku varnarinnar í tveimur fyrstu leikjum landsliðsins á heimsmeistaramótinu og telja má víst að ef framhald verður á þá sé þar á ferð tvíeyki í þessari stöðu sem beðið hefur verið eftir síðan farsælli samvinnu jaxlanna Ingimundar Ingimundarsonar og Sverre Andreas Jakobssonar lauk. Þeir voru burðarásar íslensku varnarinnar árum saman m.a. með framúskarandi árangri.


„Við Ýmir náum ágætlega saman og þekkjumst vel enda lékum við talsvert saman í yngri landsliðum Íslands,“ sagði Arnar Freyr þegar handbolti.is settist stutta stund niður með honum á hóteli íslenska landsliðsins í Kaíró síðdegis í gær.  „Varnarleikurinn hefur verið góður hingað til, það er bara frábært,“ sagði Arnar Freyr hæverskur. Hann tekur nú þátt í þriðja heimsmeistaramótinu í röð. Alls eru HM leikirnir orðnir 16 og mörkin 20.

„Við skoðum videó sem Guðmundur færir okkur og síðan ræðum við saman okkar á milli hvers megi vænta í leikjum og hvernig við sjáum fyrir okkur að leysa úr þeim málum sem komið geta upp og eru fyrirséð,“ sagði Arnar Freyr sem var á fullu að búa sig undir landsleikinn í kvöld þegar handbolti.is  rabbaði við hann síðdegis í gær.

„Lið Marokkó er um margt svipaður andstæðingur og Alsír. Þeir eiga það til að koma ennþá framar á leikvöllinn en Alsír þegar þeir eru í vörn. Sóknarleikur þeirra er sérstakur. Kannski er best að lýsa honum þannig að það er mjög mikið að gerast hjá þeim. Leikmenn eru frekar litlir og snöggir og við verðum að vera á tánum frá byrjun og tala mikið saman.  Það er lykillinn að þessu,“ sagði Arnar Freyr.

Tók rétt skref í sumar

Arnar Freyr, sem er Framari, futti sig um set á liðnu sumri, gekk til liðs við MT Melsungen eftir aðeins eitt keppnistímabil með GOG í Danmörku. Þar áður hafði hann verið í tvö ár hjá IFK Kristianstad í Svíþjóð. 

„Ég var eitt tímabil í Danmörku sem varð reyndar styttra vegna veirunnar og deildarkeppninni var hætt fyrr en venjulega. Í framhaldinu fór ég yfir til Þýskalands. Tímabilið í Þýskalandi hófst ekki fyrr en um mánaðarmótin september og októbert. Til viðbótar þá höfum við tvisvar sinnum þurft að fara í sóttkví í á síðustu mánuðum. Þar af leiðandi hefur ástandi verið mjög sérstakt á þessu keppnistímabili.  Annars tel ég að það hafi verið fínt stökk að fara yfir til Þýskaland. Ég hef fengið mörg tækifæri með liðinu auk þess sem samherjarnir eru mjö góðir. Ég hef þar af leiðandi ekki yfir neinu að kvarta persónulega um þessar mundir,“ sagði Arnar Freyr Arnarsson sem leikur undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundsson hjá MT Melsungen.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -