- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mjög sætt að jafna metin

Thea Imani Sturludóttir, Val. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Það var mjög sætt að vinna og jafna metin,“ sagði Thea Imani Sturludóttir leikmaður Vals í samtali við handbolta.is eftir sigur liðsins á Fram, 27:26, í annarri viðureign liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna í Origohöllinni í kvöld. Thea Imani var besti leikmaður Vals samkvæmt niðurstöðum tölfræðiveitunnar HBStatz með 9,1 af 10 mögulegum í einkunn.


„Við vorum með yfirhöndina eftir að okkur tókst að komast yfir um miðjan fyrri hálfleik,“ sagði Thea Imani og bætti við að leikurinn hafi verið mjög hraður og hver mistök væru dýr í úrslitaleikjunum sem fram til þessa hafa verið hnífjafnir og spennandi.

Héldu einbeitingu

Valur missti niður fjögurra marka forskot í síðari hálfleik. Thea Imani sagði að þrátt fyrir það hafi Valsliðið ekki óttast að það væri að missa Framara framúr sér. „Við vorum bara með fókusinn á leiknum frá upphafi til enda. Eftir að við misstum niður forskotið þá tókst okkur að bæta vörnina, halda aftur af sóknarþunga Framliðsins og koma oft í veg fyrir að fá á okkur mörk eftir seinni bylgjuna. Það hafði mikið að segja og þá náðum við að komast yfir aftur.“

Eins og ping pong

Litlu mátti mun að Fram jafnaði metin á síðustu sekúndunum þegar liðið vann boltann af Val. Adam var ekki lengi í Paradís hjá Fram því Valsliðið komst inn í sendingu og vann boltann á ný þegar um 15 sekúndur voru eftir. „Þetta er bara eins og ping pong, hraðinn er svakalegur en að sama skapi gríðarlega skemmtilegt. Fram er mjög skemmtilegt lið sem gaman er að eiga við. Maður verður að gera allt hundrað prósent í úrslitakeppninni, annars getur farið illa fyrir manni.“

Verður jafnt áfram

Thea Imani sagðist reikna með að næstu leikir verði eins og þeir tveir fyrstu, hnífjafnir og spennandi. „Bæði lið eru góð, úrslitin ráðast á því hvort liðið stendur vörnina betur, tapar færri boltum og heldur einbeitingu lengur,“ sagði Thea Imani Sturludóttir, leikmaður Vals sem skoraði sjö mörk í leiknum, átti fimm sköpuð færi og fimm stoðsendingar í leiknum auk þess að vera hörð í horn að taka í vörninni.


Þriðji úrslitaleikur Fram og Vals verður í Framhúsinu á fimmtudagskvöld og hefst klukkan 19.30.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -