- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Æfing í morgun, Brand sjötugur, Díana Dögg, Odden, Sandra, Parrondo

U17 ára landsliðið hafnaði í sjötta sæti á Ólympíuhátíð æskunnar. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -
  • Eftir góðan sigur á landsliði Króatíu í fyrstu umferð handknattleikskeppni Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar í gær, 35:26, þá mæta íslensku strákarnir í U17 ára landsliðinu danska landsliðinu í dag. Danir lögðu Spánverja í gær með sjö marka mun, 31:24. HSÍ segir í morgun frá því að íslensku strákarnir hafi farið á létta æfingu í morgun þar sem lagt var á ráðin fyrir leikinn við Dani. 

  • Heiner Brand fyrrverandi landsliðsmaður og landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik karla er sjötugur í dag. Brand er annar tveggja manna sem hefur unnið heimsmeistaratitilinn í handknattleik sem leikmaður og landsliðsþjálfari. Hann var í nafntoguðu landsliði Þjóðverja sem varð heimsmeistari í Danmörku 1978. Brand stýrði þýska landsliðinu til sigurs á HM á heimavelli 2007. Aðeins eru þrír daga síðan, Vlado Stenzel, þjálfari þýska landsliðsins sem vann HM 1978 hélt upp á 88 ára afmæli sitt.  
  • Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar í BSV Sachsen Zwickau ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrstu umferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik 7. september. Zwickau-liðið tekur á móti ríkjandi meisturum, Bietigheim, á heimavelli. Bietigheim vann þýsku 1. deildina á síðasta keppnistímabili með fullu húsi stiga. Hin sænska Sara Odden fyrrverandi leikmaður Hauka þreytir í leiknum frumraun sína í þýsku 1. deildinni í leiknum en hún gekk til liðs við BSV Sachsen Zwickau í sumar. 
  • Sandra Erlingsdóttir leikur sinn fyrsta leik í þýsku 1. deildinni með TuS Metzingen gegn HSG Bad Wildungen Vipers á heimavelli 10. september. Sandra gekk til liðs við Metzingen í sumar. Báðar íslensku handknattleikskonurnar sem leika í þýsku 1. deildinni á næsta keppnistímabili eiga rætur að rekja til Vestmannaeyja

  • Egypskir fjölmiðlar segja frá því í morgunsárið að Roberto Garcia Parrondo sé hættur við að hætta sem landsliðsþjálfari Egypta í handknattleik karla. Parrondo tilkynnti eftir Afríkukeppnina 18. júlí að hann ætlaði ekki að endurnýja samning sinn við egypska handknattleikssambandið. Nú virðist Parrondo, sem einnig er þjálfari Melsungen í Þýskalandi, hafa skipt um skoðun.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -