- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Áfall hjá Brössum og Rússum, áfram frá vinnu, nýr landsliðsþjálfari, áhyggjur af matareitrun á HM

Thiagus Petrus leikmaður Barcelona og landsliðsmaður Brasilíu tekur vafalaust seint og illa þátt í HM að þessu sinni. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Thiagus Petrus, fremsti handknattleiksmaður Brasilíu og leikmaður Barcelona verður ekki með brasilíska liðinu á HM, alltént ekki í fyrstu leikjum landsliðsins. Hann hefur smitast af kórónuveirunni eins og sjö aðrir í hópi leikmanna og starfsmanna landsliðsins. Þetta eru skellur fyrir brasilíska landsliðið. Petrus er af mörgum talinn vera einn fremstu varnarmaðurinn í handknattleiknum í dag. 
  • Landsliðsþjálfarinn Marcus Tatá missir væntanlega af mótinu vegna veirunnar auk markvarðarins Leonardo Terçariol. Annar hefur verið kallaður inn í hans stað. Fjórir starfsmenn liðsins eru ennfremur smitaðir. Allir hinna smituðu verða að dvelja í sóttkví í Portúgal þar sem brasilíska liðið hefur dvalið við æfingar upp á síðkastið. 
  • Rússneska landsliðið varð fyrir skakkaföllum í gær þegar rétthenta skyttan Alexander Shkurinsky heltist úr lestinni vegna meiðsla á ökkla. Fjarvera Shkurinsky er talsvert áfall fyrir rússneska landsliðið þar sem hann hefur leikið vel fyrir hvít-rússnesku meistarana Meshkov Brest á leiktíðinni. Miðjumaðurinn Pavel Atman er þegar úr leik vegna meiðsla og þá hafa Dmitry Santalov og Mikhail Vinogradov ekkert æft með liðinu vegna meiðsla. Sá fyrrnefndi fer þó með rússneska liðinu til Kaíró.  
  • Stephan Swat, þjálfari Íslendingaliðsins EHV Aue, verður áfram í veikindaleyfi næstu vikurnar að sögn Rüdiger Jurke framkvæmdastjóra félagsins. Swat veiktist alvarlega af kórónuveirunni í nóvember. Rúnar Sigtryggsson hljóp í skarðið fyrir Swat í desember og eins og kom fram á handbolti.is skömmu fyrir áramót þá mun Rúnar halda áfram þjálfun Aue-liðsins a.m.k. fram í byrjun mars. 
  • Adi Vasile hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari rúmenska kvennalandsliðsins. Hann tekur við af Bodgan Burcea sem var látinn taka hatt sinn og staf eftir Evrópumót kvenna í handknattleik í desember. Vasile er 38 ára gamall og var aðstoðarþjálfari kvennalandsliðs Svartfjallalands. Rúmenska landsliðið hafnaði í 12. sæti á EM sem er lakasti árangur þess á EM frá upphafi.
  • Kurt Steuer, læknir þýska landsliðsins  í handknattleik, segist ekki óttast það síður að menn fái slæmsku í magann vegna óhreininda í mat og drykk í Egyptalandi, en að leikmenn smitist af kórónuveirunni. Matareitrun sé algengt vandamál sem hafi hrjáð mjög marga ferðamenn sem sæki Egyptaland heim. Steuer talar af reynslu því hann starfaði í Egyptalandi um hríð og var meðal annars læknir egypska landsliðsins í handknattleik.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -