Molakaffi: Andri Heimir, Axel, Sara Dögg, Wester, Thomsen

Andri Heimir Friðriksson t.h. ætlar að draga saman seglin. Mynd Þorgils G - Fjölnir handbolti
  • Handknattleiksmaðurinn Andri Heimir Friðriksson hefur ákveðið að leggja handknattleiksskóna á hilluna. Andri Heimir hefur síðustu ár leikið með ÍR og var í liðinu sem endurheimti sæti í Olísdeildinni um síðustu helgi. Andri Heimir hefur víða komið við og m.a. leikið með ÍBV, Haukum og Fram. Hann varð m.a. Íslandsmeistari með ÍBV 2014, þrefaldur meistari með sama liði 2018 og bikarmeistari 2016
  • Axel Stefánsson og leikmenn hans í Storhamar unnu Sola með tíu marka mun, 37:27, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum norsku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Leikið var á heimavelli Storhamar. Liðin mætast á ný eftir viku á heimavelli Sola nærri Stavangri.
  • Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði þrjú mörk þegar lið hennar, Gjerpen HK Skien vann Levanger, 32:24, í umspili um sæti í norsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Sara Dögg og samherjar réðu lögum og lofum í síðari hálfleik og skoruðu 15 mörk gegn 10. Gjerpen HK Skien hefur þar með unnið sér sæti í umspilsleikjum við Tertnes um sæti í norsku úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili. Leikirnir fara fram 19. og 22. maí.
  • Tess Wester, landsliðsmarkvörður Hollands, leikur ekki fleiri leiki á þessu ári en hún greindi frá því í gær að hún væri ólétt. Nokkuð er síðan greint var frá því að Wester ætlaði ekki að endurnýja samning sinn við CSM Bucuresti sem rennur út í sumar.
  • Danski handknattleiksþjálfarinn Helle Thomsen sem lengi þjálfaði hollenska kvennalandsliðið hefur samið við franska liðið Nancy til eins árs. Hún tók tímabundið við þjálfun liðsins fyrir nokkrum vikum. Var þá gert ráð fyrir að Thomsen yrði aðeins út yfirstandandi tímabil en ljóst að það lengist í dvölinni hjá henni í Nancy.
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -