- Auglýsing -

Molakaffi: Daníel, Bjarni, Díana, Örn, Anton, Tumi, Aðalsteinn, Hannes, Nantes, danska íþróttasambandið

Daníel Freyr Andrésson markvörðurog félagar í Guif unnu í dag. Mynd/Eskilstuna Guif
  • Daníel Freyr Andrésson stóð sig vel þann stutta tíma sem hann stóð á milli stanganna í marki Guif-liðsins er það vann Önnereds, 33:31, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Daníel Freyr varð sjö af 15 skotum sem hann fékk á sig á lokakafla leiksins. Guif heldur þar með áttunda sæti deildarinnar með 20 stig eftir 22 leiki. 
  • Bjarni Ófeigur Valdimarsson var ekki í liði IFK Skövde þegar liðið vann IFK Ystad, 31:27, í Ystad í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Skövde er í þriðja sæti deildarinnar með 30 stig, er fimm stigum á eftir Sävehöf sem er efst. 
  • Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði eitt mark fyrir Sachsen Zwickau í 13 marka tapi liðsins á móti Dortmund, 29:16, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Hún átti einnig eina stoðsendingu, vann eitt vítakast og stal boltanum einu sinni. Kórónuveiran herjað grimmt á leikmenn Sachsen Zwickau á síðustu fimm vikum og í tvígang hefur komið upp hópsýking. Æfingar hafa fyrir vikið verið af skornum skammti og leikmenn sumir orðið afar slappir. Kom þetta allt saman niður á leik liðsins gegn þýsku meisturunum í gær. 
  • Ekki gengur sem skyldi hjá Íslendingunum hjá TV Emsdetten í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Í gær tapaði Emsdetten fyrir TuS Ferndorf, 33:24, á útivelli. Örn Vésteinsson Östenberg skoraði fjögur mörk. Anton Rúnarsson náði sér ekki á strik og skoraði hvorki mark né átti hann stoðsendingu. Emsdetten er í 15. sæti af 20 liðum deildarinnar. Ferndorf er næst neðst. 
  • Tumi Steinn Rúnarsson og félagar í Coburg töpuðu fyrir Tusem Essen, 24:25, á heimavelli í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Tumi Steinn skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu í leiknum. Coburg er í 14. sæti deildarinnar en Essen er í fjórða sæti.
  • Ekkert lát er á sigurgöngu Aðalsteins Eyjólfssonar og lærisveina hans í Kadetten Schaffhausen. Þeir unnu GC Amicitia Zürich með 11 marka mun á heimavelli í gær, 36:25. Kadetten er með átta stiga forskot í efsta sæti deildarinnar eftir 20 leiki. Kadetten hefur unnið 18 leiki í deildinni og gert tvö jafntefli. 
  • Hannes Jón Jónsson stýrði sínum mönnum í Alpla Hard til sigurs á Ferlach, 25:22, í austurrísku 1. deildinni í handknattleik á heimavelli í gær. Meistarar Alpla Hard eru efstir í deildinni, eru stigi á undan Krems sem hefur leikið einum leik fleira. 
  • Franska handknattleiksliðið HBS Nantes hefur farið fram á það við Handknattleikssamband Evrópu, EHF, að viðureign liðsins við Medvedi frá Rússlandi sem fram á að fara á þriðjudaginn verði frestað. Leikurinn er liður í Evrópudeildinni í handknattleik og á að fara fram í Frakklandi.
  • Danska íþróttasambandið hefur sett fram þá ósk að sett verði keppnisbann á rússneska og hvít-rússneska íþróttamenn vegna innrásar Rússa í Úkraínu og hlutdeildar Hvít-Rússa. Danska íþróttasambandið hefur ályktað að bannið verði hluti af aðgerðum Evrópusambandsins.
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -