Molakaffi: Daníel, Janus, Elvar, Alexander, Arnar, Donni, Hörður, Axel, Aron, Orri, Haukur

Daníel Þór Ingason. Mynd/Balingen-Weilstetten
  • Daníel Þór Ingason skoraði eitt mark þegar lið hans Balingen gerði sér lítið fyrir og vann Göppingen, 28:27, á útivelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Balingen veitti ekki af sigrinum en með honum færðist liðið upp úr neðsta sæti deildarinnar og upp í það næst neðsta. Janus Daði Smárason var ekki í leikmannhópi Göppingen að þessu sinni. 
  • Elvar Örn Jónsson mætti til leiks með Melsungen á nýjan leik eftir að hafa verið fjarverandi vegna meiðsla í næsta leik á undan. Melsungen vann N-Lübbecke, 31:23, á útivelli í gær í þýsku 1. deildinni. Elvar skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu. Alexander Petersson skoraði eitt mark fyrir Melsungen-liðið og átti einnig eina stoðsendingu. Arnar Freyr Arnarsson skoraði ekki en var einu sinni vísað af leikvelli fyrir að vera full ákafur í vörninni.  Melsungen er í sjötta sæti deildarinnar með 29 stig eftir 25 leiki. 
  • Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði tvö mörk og var einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur þegar PAUC tapaði fyrir PSG í frönsku 1. deildinni í handknattleik í gær, 37:32.  PAUC er í þriðja sæti deildarinnar með 32 stig eftir 22 leiki, er 10 stigum á eftir PSG sem er taplaust í efsta sæti.
  • Ekki gekk sem best hjá Herði Fannari Sigþórssyni og samherjum í KÍF frá Kollafirði í fyrsta úrslitaleiknum um færeyska meistaratitilinn í gær. Þeir töpuðu með 10 marka mun fyrir H71 en leikið var í Þórshöfn. Næsti leikur verður í Kollafirði á miðvikdagskvöld. Vinna þarf þrjá leiki til þess að verða meistari. Herði Fannari tókst ekki að skora mark í leiknum í gær. 
  • Axel Stefánsson og liðsmenn hans í Storhamar féllu úr leik í Evrópudeildinni í handknattleik kvenna í gær. Storhamar tapaði fyrir Viborg, 38:37, í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum. Leikið var á Jótlandi. Viborg vann einnig fyrri leikinn, 33:31.
  • Aron Dagur Pálsson og Orri Freyr Þorkelsson skoruðu tvö mörk hvor þegar Elverum vann Kristiansand, 38:33, í norsku úrvalsdeildinni í gær. Elverum er fyrir löngu orðið norskur meistari enn eitt árið. Eftir 25 leiki er liðið með fullt hús stiga, 50, og á aðeins einn leik eftir. 
  • Haukur Þrastarson kom lítið við sögu og skoraði ekki mark þegar Vive Kielce vann Wybrzeze Gdansk, 39:25, í pólsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Vive Kielce er efst i deildinni eftir 21 leik og hefur ekki tapað stigi. Sigvaldi Björn Guðjónsson lék ekki með Kielce vegna meiðsla.
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -