Molakaffi: Daníel, Teitur, Heiðmar, Hörður, Björgvin, Motoki, Atli, Einar, Rasimas, Ægir, Árni, Poulsen

Daníel Þór Ingason. Mynd/Balingen-Weilstetten
  • Daníel Þór Ingason og samherjar hans í Balingen-Weilstetten eru ekki af baki dottnir þrátt fyrir erfiða stöðu í næsta neðsta sæti þýsku 1. deildarinnar. Þeir gerðu það gott í heimsókn til Hamborgar í gær og gerðu sér lítið fyrir og lögðu HSV Hamburg, 34:29. Grunn að sigrinum lögðu leikmenn Balingen með öflugum leik í fyrri hálfleik en þeir voru sex mörkum yfir að honum loknum, 19:13. Daníel Þór skoraði eitt mark. Balingen er í 17. og næst neðsta sæti með 13 stig en hefur jafnað GWD Minden að stigum auk þess að eiga leik til góða.
  • Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk og átti fjórar stoðsendingar þegar Flensburg tók neðsta lið þýsku 1. deildarinnar, N-Lübbecke, í karphúsið á heimavelli í gær, 30:19. Flensburg er í fjórða sæti deildarinnar með 40 stig, átta stigum á eftir Magdeburg sem vann Wetzlar í gær.
  • Heiðmar Felixson gerði það gott í gær við stjórnvölin hjá Hannover-Burgdorf í fjarveru Christian Prokop þjálfara. Hannover-Burgdorfliðið náði jafntefli við Füchse Berlin í Max Schmeling halle í Berlín, 32:32. Talsverður munur er á stöðu liðanna. Berlínarliðið er í þriðja sæti með en Hannover-Burgdorf í 14. sæti. Prokop þjálfari greindist með kórónuveirusmit fyrir helgina og sat þar af leiðandi heima í gær.
  • Hörður Fannar Sigþórsson og félagar í KÍF frá Kollafirði töpuðu þriðja úrslitaleiknum við H71 um færeyska meistaratitilinn í handknattleik karla á laugardagskvöldið, 29:22. Leikið var á heimavelli H71 í Þórshöfn. Í gær vann kvennalið H71 færeyska meistaratitilinn í kvennaflokki. Sigurhelgi er þar með að baki hjá Hoyvikurliðinu.
  • Björgvin Páll Gústavsson markvörður Vals mætti til leiks í gær eftir að hafa jafnað sig eftir höfuðhögg á æfingu í vikunni. Hann átti stórleik þegar Valur vann Selfoss, 38:26, og tryggði sér deildarmeistaratitilinn Olísdeildinni. Björgvin Páll fer af landi brott árla dags með fríðu föruneyti HSÍ áleiðis til móts við leikmenn íslenska landsliðsins sem koma saman í Bregenz í Austurríki.
  • Félagi Björgvins Páls í markinu hjá Val, japanski landsliðsmarkvörðurinn Sakai Motoki meiddist á olnboga á fyrstu sekúndum síðari hálfleiks og kom ekkert meira við sögu.
  • Atli Ævar Ingólfsson, Einar Sverrisson og Vilius Rasimas léku ekki með Selfossi í gær. Allir eru þeir meiddir en verða vonandi mættir klárir í slaginn í úrslitakeppnina þegar Selfoss mætir FH 22. apríl í Kaplakrika.
  • Ægir Hrafn Jónsson dró skóna ofan af hillu í gær og lék með Fram gegn Aftureldingu í lokaumferð Olísdeildar. Þátttaka Ægis varð endasleppt því hann fékk rautt spjald eftir 39 mínútur. Fram fagnaði engu að síður sigri, 26:23, og komst í úrslitakeppni Olísdeildar.
  • Árni Bragi Eyjólfsson lék á ný með Aftureldingu í gær eftir að hafa verið frá keppni síðan síðla í febrúar. Hann skoraði tvö mörk í tapleik Aftureldingar fyrir Fram.
  • Færeyingurinn Vilhelm Poulsen var í leikmannahópi Fram í gær. Hann meiddist á ökkla fyrir rúmum tveimur vikum og var talið sennilegt að hann hefði leikið sinn síðasta leik fyrir Fram. Það er seigt í þeim færeyska sem hefur ekki útilokað að mæta til leiks í Kiel á miðvikudaginn þegar færeyska landsliðið mætir lærisveinum Alfreðs Gíslasonar í þýska landsliðinu í umspili um farseðil á HM á næsta ári. Poulsen skoraði ekki í leiknum við Aftureldingu.
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -