- Auglýsing -

Molakaffi: Donni, Grétar Ari, Aron Dagur, Daníel, Kristensen, Lacrabere, Frade, van Behren

Kristján Örn Kristjánsson, Donni, og Luis Frade. Mynd/Mummi Lú
  • Kristján Örn Kristjánsson, Donni, átti stórleik í gærkvöld þegar lið hans PAUC vann Cesson Rennes, 25:24, á heimavelli í frönsku 1. deildinni í handknattleik. Donni var markahæstur hjá PAUC með átta mörk í 10 skotum. Ekkert markanna skoraði hann úr vítaköstum. PAUC er þriðja sæti deildarinnar með 15 stig eftir 10 leiki eins og Nantes sem vann Chartres, 33:27.
  • Grétar Ari Guðjónsson varði fimm skot, 19% hlutfall, þegar Nice tapaði á útivelli fyrir Billere í 2. deildinni í  Frakklandi í gærkvöld. Nice er komið niður í 11. sæti af 16 liðum deildarinnar með átta stig þegar 11 leikir eru að baki. 
  • Aron Dagur Pálsson og Daníel Freyr Andrésson og félagar þeirra í Guif féllu í gærkvöld úr leik í sænsku bikarkeppninni í handknattleik. Guif og Lugi skildu jöfn, 36:36, í síðari viðureigninni átta liða úrslitum í gærkvöld. Jafnteflið dugði Guif skammt eftir átta mark tap, 38:29, í fyrri viðureigninni. 
  • Kristian Kristensen sem þjálfað hefur danska úrvalsdeildarliðið Ribe-Esbjerg síðan í apríl 2020 er hættur störfum. Hvorki hefur gengið né rekið hjá Ribe-Esbjerg á leiktíðinni og er liðið í næst neðsta sæti úrvalsdeildar með sex stig eftir 10 leiki. Þrír Íslendingar léku undir stjórn Kristensen á síðustu leiktíð, Daníel Þór Ingason, Gunnar Steinn Jónsson og Rúnar Kárason.  Þá var liðið einnig í basli. 
  • Hin þrautreynda franska handkattleikskona Alexandra Lacrabere hefur ákveðið að binda enda á landsliðsferilinn. Hún verður þar af leiðandi ekki með franska landsliðinu á HM á Spáni í  næsta mánuði. Lacrabere  var í sigurliði Frakka á Ólympíuleikunum í sumar og eins á EM 2018 og HM 2017. Hún er 34 ára gömul og á að baki 15 ár með franska landsliðinu. Landsleikirnir eru 252 og mörkin 832. 
  • Luis Frade verður ekki meira með Barcelona á keppnistímabilinu. Félagið staðfesti það á miðvikudaginn Þar af leiðandi tekur Frade ekki þátt í EM með portúgalska landsliðinu í janúar. Hann fór í aðgerð vegna slitins krossbands.
  • Þýska handknattleiksliðið GWD Minden sagði í vikunni upp framkvæmdastjóranum Frank von Behren. Liðið rekur lestina í þýsku 1. deildinni og ljóst að forráðamenn félagsins fara nýja leið til að taka til í herbúðunum. Yfirleitt er þjálfara sagt upp gangi liði illa. Von Behren hafði verið framkvæmdastjóri GWD Minden (sem lengi var kallað Dankersen hér á landi) frá janúar 2017. Hann er fyrrverandi landsliðsmaður Þjóðverja. 
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -