- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Elvar, Grétar, Bodnieva, Gurbindo, Vujovic, Gidsel

Elvar Ásgeirsson leikmaður Nancy í Frakklandi. Mynd/Nancy
- Auglýsing -
  • Elvar Ásgeirsson skoraði fjögur mörk í sjö skotum í gærkvöld þegar lið hans, Nancy, tapaði fyrir Cesson Rennes, 33:23, í deildarbikarkeppninni í Frakklandi á heimavelli Cesson Rennes.
  • Grétar Ari Guðjónsson og samherjar í Nice unnu Villeurbanne, 31:28, á útivelli í fyrstu umferð frönsku bikarkeppninnar í gærkvöld. Grétar Ari lék hluta leiksins í marki Nice og varði eitt skot. 
  • Ludmila Bodnieva hefur verið ráðin þjálfari rússneska kvennalandsliðsins í handknattleik. Hún tekur við Alexey Alekseev sem stýrt hefur landsliðinu frá því í lok desember. Bodnieva hefur verið aðstoðarþjálfari landsliðsins síðan í júní og tók þátt í undirbúningi og þátttöku rússneska landsiðsins á Ólympíuleikunum í sumar. Bodnieva er þrautreynd handknattleikskona og var m.a. í sigurliði Rússa á HM 2001 og 2005. Hún er fyrsta konan sem ráðin er þjálfari kvennalandsliðs Rússlands
  • Spænski landsliðsmaðurinn Eduardo Gurbindo hefur óvænt yfirgefið Vardar Skopje og samið við Dinamo Búkarest. Gurbindo gekk til liðs við Vardar í sumar frá Nantes í Frakklandi og skrifaði undir þriggja ára samning. Mikið óyndi greip Gurbindo eftir komuna til Skopje. Hann hefur ekki leikið einn einasta lið fyrir félagið og á dögunum bárust fregnir um að hann vildi róa á önnur mið. Veselin Vujovic, þjálfari Vardar, segir að ákvörðun Gurbindo hafi komið öllum í opna skjöldu því allir hafi lagt sig fram um að Spánverjanum liði sem best hjá félaginu. 
  • Rúmenski vefmiðillinn Digi Sport greindi frá því í gærmorgun að Gurbindo hafi skrifað undir tveggja ára samning við Dinamo Búkarest og að félagið hafi greitt Vardar 50.000 evrur, jafnvirði 7,6 milljóna króna fyrir Spánverjann.  Vardar sló helming af upphaflegum kröfum.
  • Frá og með árinu 2023 verður úrslitahelgi þýsku bikarkeppninnar í karlaflokki flutt til Lanxess-Arena í Köln frá Hamborg þar sem hún hefur verið haldin í rúman áratug.
  • Danski handknattleiksmaðurinn Mathias Gidsel ætlar ekki að stökkva um borð hjá þýska liðinu Flensburg en það leitar nú að manni til láns vegna meiðsla í herbúðunum. Gidsel var efstur á óskalista Flensborgara. Hann sendi skýr skilaboð í gær þess efnis að ekki komið til álita að fara til þýska liðsins. „Ég á óunnið verk hjá GOG áður en ég fer á næsta sumri,” sagði Gidsel sem valinn var mikilvægasti leikmaður handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í sumar. Hann hefur samið við Füchse Berlin frá og með næsta sumri.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -