- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Eyrún Ósk, Metz, hættir eftir 21 ár, Györ, Weber, Andreev

Eyrún Ósk Hjartardóttir leikmaður Fjölnis/Fylkis. Mynd/Fjölnir
- Auglýsing -
  • Eyrún Ósk Hjartardóttir hefur skrifað undir samning við Fjölni/Fylki og leikur með liðinu í Grill66-deildinni á næsta keppnistímabili. Eyrún er uppalin hjá Fylki og spilaði með yngri landsliðum. Hún spilaði um tíma með meistaraflokk Fjölnis og síðan með sameinuðu liði Fjölnis/Fylkis. Eyrún spilar horn en einn af mörgum styrkleikum hennar eru hraðaupphlaup, segir í tilkynningu handknattleiksdeildar Fjölnis. 
  • Metz varð franskur meistari í handknattleik kvenna á sunnudaginn. Liðið vann Brest, 25:22, í síðari úrslitaleik liðanna. Brest vann fyrri viðureignina, 26:24. Metz vann þar með með eins marks mun, 49:48. 
  • Hinn þrautreyndi danski handknattleiksþjálfari Heine Eriksen hefur ákveðið að hætta þjálfun yngri landsliðanna að loknu heimsmeistaramóti kvenna skipað leikmönnum 20 ára og yngri sem fram fer í sumar. Það væri í sjálfu sér ekki fréttnæmt nema fyrir þær sakir að Eriksen hefur þjálfað yngri landslið kvenna í Danmörku í 21 ár og stýrt liðunum í rúmlega 500 leikjum. Fáir hafa haft eins mikil áhrif á vöxt og viðgang kvennahandknattleiks í Danmörku á síðustu tveimur áratugum og Eriksen. 
  • Ungverska stórliðið Györ tapaði flestum að óvörum fyrir FTC (Ferencváros) í úrslitum ungversku bikarkeppninnar í handknattleik á sunnudaginn, 26:22. Györ hefur lengi haft nokkra yfirburði í heimalandinu og unnið bikarkeppnina og deildarkeppnina nokkuð örugglega. Reyndar vann liðið ekki ungverska meistaratitilinn fyrir ári sem varð til þess að þáverandi þjálfara var sagt snarlega upp störfum.  Györ mætir Esbjerg í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á laugardaginn. 
  • Austurríski landsliðsmaðurinn Robert Weber sem leikið hefur með Nordhorn í Þýskalandi síðustu þrjú ár hefur ákveðið að segja skilið við liðið í sumar og ganga til liðs við gríska meistaraliðið Olympiakos. Weber er 36 ára gamall. Hann var í tíu ár í herbúðum Magdeburg áður en hann skipti yfir til Nordhorn. 
  • Rússneski línumaðurinn Pavel Andreev söðlar um í sumar ætlar að leika með Vardar Skopje næstu tvö ár. Andreev hefur var í herbúðum Chekhovskie Medvedi í Moskvu á nýliðinni leiktíð og vakti athygli á EM í janúar fyrir góða frammistöðu með rússneska landsliðinu.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -