Molakaffi: HM U20 ára, Ungverjar, U18, Tatran Presov

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
  • Heimsmeistaramót kvenna í handknattleik, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, hefst í Slóveníu í dag. Óhætt er að segja að mótið hefjist af krafti en 16 leikir eru á dagskrá í dag. Um er að ræða fyrsta mótið í þessum aldursflokki þar sem 32 lið taka þátt. Fjögur ár eru liðin frá síðasta heimsmeistaramóti U20 ára kvenna. Til stóð að HM færi fram í Rúmeníu fyrir tveimur árum. Mótið var fellt niður þegar að kórónuveiran fór að leika lausum hala.  

  • Alls verða leiknir 108 leiki á mótinu á næstu 10 dögum. Ungverjar eru ríkjandi heimsmeistarar í þessum aldursflokki kvenna og einnig Evrópumeistarar U19 ára landsliða frá síðasta ári. Ekki er að undra að ungverska liðið þykir sigurstranglegast í Slóveníu
  • Í lok júlí hefst HM kvenna 18 ára og yngri í Norður Makedóníu en þangað sendir Ísland vaska sveit til leiks. 

  • Tatran Presov, landsmeistari í handknattleik karla í Slóvakíu, tekur þátt í tékknesku úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili eftir nokkurt hlé. Að mati forsvarsmanna Presov er deildarkeppnin í Slóvakíu ekki næg áskorun fyrir liðið auk þess sem Austur Evrópudeildin verður ekki svipur hjá sjón eftir að rússneska orkufyrirtækið Gazprom hætti stuðningi við keppnina í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu í lok febrúar. Til viðbótar mun Tatran Presov leika í Evrópudeildinni á vegum EHF en umsókn liðsins um sæti í Meistaradeild Evrópu mun að öllum líkindum verða vísað frá.
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -