Molakaffi: Óðinn Freyr, undankeppni HM, Fernandez, Polman, nafnabreyting

Óðinn Freyr Heiðmarsson verður áfram hjá Fjölni. Mynd/Fjölnir
  • Óðinn Freyr Heiðmarsson línumaður sem var einn af lykilmönnum Fjölnis í Grill66-deildinni í handknattleik á síðustu leiktíð hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Grafarvogsliðið. Óðinn Freyr hefur leikið með meistaraflokki Fjölnis undanfarin þrjú ár. Það hefur bróðir hans Aron Ingi einnig gert.
  • Bandaríska karlalandsliðið stendur vel að vígi eftir tvær umferðir af þremur í undankeppni Norður Ameríku fyrir HM í handknattleik sem stendur yfir þessa dagana í Mexíkóborg. Í gærkvöld vann bandaríska landsliðið það mexíkóska með 10 marka mun, 30:20. Í hinni viðureign keppninnar skildu landslið Grænlands og Kúbu jöfn, 27:27. Bandaríkin hafa unnið báða leiki sína til þessa, Mexíkó er með einn sigur og eitt tap, Grænland og Kúba eru með eitt stig hvort. Lokaumferð riðlakeppninnar fer fram í kvöld og úrslitaleikir verða á fimmtudaginn. 
  • Spánverjinn Angel Fernandez staldraði ekki lengi við hjá Barcelona. Hann kom til félagsins á síðasta sumri frá Łomza Industria Kielce. Nú hefur Fernandez ákveðið að færa sig aðeins norðar í álfunni og samið við franska 1. deildarliðið Limoges
  • Ekki hefur tekist að bera klæði á vopnin í deilu danska handknattleiksliðsins Team Esbjerg og hollensku landsliðskonunnar Estavana Polman. Nú er málum svo komið að Polman hefur stefnt Esbjerg fyrir brot á samningi. Nýtur hún fulltingis leikmannasamtakanna í Danmörku. Snemma árs kastaðist í kekki á milli forráðamanna Esbjerg og Polman sem lauk með því að félagið sagðist ekkert hafa lengur við starfskrafta hennar að gera.
  • Pólska  meistaraliðið Kielce sem Haukur Þrastarson leikur með tilkynnti í gær að nafni félagsins hafi verið breytt í Łomza Industria Kielce í framhaldi af þriggja ára samningi við Industria. Um leið hafi Vive verið fellt niður úr nafni félagsins eftir 20 ár. 


- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -